139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

breytingar á Lagarfljóti.

[11:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Frú forseti. Það er fróðlegt að verða var við að þingmenn skemmta sér yfir þessum tíðindum og ekki síst þingmenn þess kjördæmis sem um ræðir, þeir sitja á fremsta bekk og hafa í flimtingum þau tíðindi sem þarna eru flutt af Lagarfljóti. Það er athyglisvert, ekki síst fyrir kjósendur þeirra, að verða var við það. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin en hún svaraði ekki meginspurningu minni: Er rétt að fram fari fari formleg rannsókn á því hvernig þetta varð til í umhverfisráðuneytinu? Ég vek athygli hennar á því að ef slík rannsókn fer ekki fram eða einhver hliðstæð skýrsla er gerð liggur umhverfisráðuneytið sjálft undir því að menn geta ekki trúað því með fullu sem þaðan kemur vegna þess úrskurðar sem hér um ræðir.

Svo spyr ég umhverfisráðherra enn hvað líði niðurstöðum könnunar sem ráðherrann bað sem betur fer um að fram færi á því að skilyrðum yrði framfylgt. Skilyrði um lífríki Lagarfljóts voru að vísu sett en náðu aðeins til fuglalífs (Forseti hringir.) en ekki fiska þannig að umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið þá ákváðu greinilega fyrir fram að fórna fiskstofnunum í Lagarfljóti.