139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[11:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum nú atkvæði um breytingar á vatnalögum frá árinu 1923, með síðari breytingum. Það eru ákaflega merkileg og góð lög sem hafa staðist tímans tönn. Hér eru nokkrar breytingartillögur sem hv. iðnaðarnefnd hefur sett fram eftir mikla, góða og samhenta vinnu í nefndinni. Þeim fylgir ítarlegt nefndarálit allra níu nefndarmanna en fjórir hafa fyrirvara um, eins og gengur og gerist.

Kannski er merkilegasta breytingin sem við leggjum til við 1. gr. þar sem sett er inn markmiðsgrein, ákaflega merkileg og góð, sem ég held að muni verða leiðandi fyrir þær breytingar og þau vatnalög sem taka gildi eftir þetta.

Virðulegi forseti. Mér sýnist að með þessu og með hinni góðu vinnu iðnaðarnefndar, samhentri vinnu allra flokka, sé að ljúka deilu innan þings og milli flokka á þessu máli. Það er gott þegar hægt er að ljúka því á þennan hátt. Ég ítreka enn einu sinni þakkir mínar til iðnaðarnefndarmanna fyrir farsæla, góða og samhenta vinnu við að koma þessu máli í þennan farveg og vona að víðtæk sátt meðal allra þingmanna komi fram í atkvæðagreiðslunni. (BJJ: Takk sömuleiðis.)