139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn fór fram og gekk til starfa undir þeim merkjum að hafa gagnsæi og opna umræðu og lýðræði að leiðarljósi. Grundvöllurinn í því er að hér geti farið fram málefnaleg umræða og að framkvæmdarvaldið veiti þinginu þau svör sem það er innt eftir í einföldum spurningum, eðlilegum spurningum.

Hv. þm. Merði Árnasyni finnst það greinilega í lagi að hæstv. forsætisráðherra segist nánast beinum orðum ekki ætla að gefa neitt svar við þeim spurningum sem hér eru lagðar fram. Ja, það er þá væntanlega hans sýn á það hvernig gagnsæ og lýðræðisleg umræða fer fram hér á Alþingi ef forsætisráðherra, eða hver annar ráðherra, getur sagt að hann ætli ekki að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Það er nákvæmlega það sem við urðum vitni að. Eðlilegar spurningar sem (Forseti hringir.) brenna á fólki, ekki bara hér í þinginu heldur í (Forseti hringir.) samfélaginu öllu, hæstv. ráðherra neitar að gefa þinginu svör við þeim spurningum. Það verður ekki við þetta búið, virðulegi forseti.