139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég verð að sæta því að hv. þingmaður leggur mér orð í munn. Það lýsir bara hans skáldlega eðli og það er allt í lagi með það, gott að menn séu hér með ýmsum einkennum.

Það sem ég rakti í þessari stuttu ræðu um fundarstjórn forseta — sem ég ver — var það að á þessum degi, hinn 12. september 2011, er það að í landinu að mati stjórnarandstöðunnar að ekki fæst nægur tími til að ræða stjórnarráðsfrumvarpið og þess vegna þarf að ræða það undir þessum lið. Tveir þeirra töldu þetta. Einn vildi fá að vita hvað hæstv. forsætisráðherra fyndist um ummæli forseta Íslands og einn spurði um Magma-málið — sá sem hér gengur í salinn — skoðanir á því, og það er kannski eina spurningin sem var einhvers virði.

Ég þakka almættinu fyrir að ekki skuli vera meira að í stjórnarfari og á landinu en þetta að mati stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.) Ég tel sjálfur að við alvarlegri vanda sé að glíma en stjórnarandstaðan hefur sýnt með frammistöðu sinni hér.