139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að með þessu eru framkvæmdarvaldið og hæstv. ráðherrar að gera tilraun til þess að mylja meira undir sig en nú er og svo kannski líka til að leysa þau vandamál sem upp hafa komið á síðustu missirum varðandi ráðningarmál í ráðuneytunum. Við vitum að hæstv. ráðherrar hafa verið að ráða til sín alls konar ráðgjafa, upplýsingafulltrúa og ýmsa aðila sem hafa fúnkerað, ef svo má segja, eins og aðstoðarmenn.

Ég lýsi því yfir að ég hefði talið að það væri nóg að hver ráðherra hefði með sér einn aðstoðarmann en ég lýsi því líka yfir að ég hefði verið reiðubúinn til að ræða þetta mál betur og fara til dæmis yfir hugmyndir sem fram hafa komið frá einum hv. þingmanni í nefndinni um það hvort gera ætti grundvallarstrúktúrbreytingu á starfsemi ráðuneytanna, að þau yrðu þannig að (Forseti hringir.) hverjum ráðherra fylgdi stór hópur manna sem hann treysti og vildi vinna með, ráðuneytisstjóri, aðstoðarmenn og æðstu stjórnendur, inn í ráðuneytið (Forseti hringir.) og út úr því aftur þegar hann færi úr embætti.