139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að eftir sem áður mun ríkisstjórn á hverjum tíma væntanlega þurfa að styðjast við þingmeirihluta varðandi meginatriði í stefnu sinni. Hins vegar breytist það með þessu frumvarpi, nái það fram að ganga, að mál af þessu tagi, t.d. stofnun nýrra ráðuneyta eða niðurlagning annarra ráðuneyta, þarf ekki að fara í gegnum þá málsmeðferð sem krafist er á Alþingi.

Málsmeðferð á Alþingi hefur tvíþættan tilgang, annars vegar að reyna eftir föngum að stuðla að vandaðri málsmeðferð, það eru ákveðnar reglur um meðferð þingmála sem eiga að leiða til þess. Svo hins vegar að málsmeðferð á Alþingi þýðir líka að mál fara í gegnum opna og lýðræðislega umræðu þar sem fleiri sjónarmið komast að en bara þau sem eru uppi innan ríkisstjórnar eða ríkisstjórnarflokka.