139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku bárust íslenskum stjórnvöldum niðurstöður eftir rýnivinnu íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins í tengslum við aðildarviðræður að ESB um landbúnað og dreifbýlisþróun. Það er að sjálfsögðu hluti af viðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Í rýniskýrslunni kemur fram að Evrópusambandið telji að Íslendingar séu ekki nægilega vel undirbúnir til að hefja viðræður um þessa kafla, einkum um landbúnaðarmál. Ástæðan fyrir því kemur fram í skýrslunni sjálfri en henni fylgir líka bréf. Í bréfinu, sem er beint til formanns samninganefndarinnar, er ekkert skafið utan af því að Evrópusambandið telur að Íslendingar séu alls ekki nægjanlega vel undirbúnir vegna þess að þeir hafi ekki gert grein fyrir því með hvaða hætti eigi að aðlaga íslenska stjórnsýslu og greiðslukerfi að kröfum Evrópusambandsins.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur fagnað þeirri niðurstöðu sérstaklega og vísar þá einkum til þess að í skýrslunni komi fram að eitthvert tillit verði tekið til séríslenskra aðstæðna. Það blasir hins vegar við öllum þeim sem kynna sér niðurstöðuna sjálfa, skoða kaflann sem um er að ræða í þessari niðurstöðu, að hér er gerð krafa um nákvæma áætlun um hvernig íslensk stjórnvöld hyggist mæta kröfum Evrópusambandsins á öllum þeim sviðum sem þarna eru undir áður en viðræðurnar hefjast. Það er grundvallaratriði. Það á sérstaklega við um stjórnsýsluna, greiðslukerfin, beingreiðslurnar og fleira sem varða dreifbýlisstyrki og byggðamál. Fram farið er á að menn leggi fram plan um hvernig það eigi allt saman að gerast áður en viðræðurnar hefjast. Í því felst að sjálfsögðu sú afstaða af hálfu Evrópusambandsins að gengið er út frá því sem vísu að íslensk stjórnvöld ætli sér og muni, og það verði jafnframt niðurstaðan í viðræðunum, að taka upp löggjöf Evrópusambandsins á Íslandi.

Látið hefur verið þannig með þennan kafla og marga aðra að hægt sé að ná fram niðurstöðum sem séu Íslendingum mjög hliðhollar eða hagstæðar. En þegar við skoðum þann kafla sérstaklega þar sem komist er að þessari niðurstöðu og greint frá því lið fyrir lið hvaða þættir það eru í íslenskri löggjöf og íslenskri stjórnsýslu sem stangast á við Evrópusambandsréttinn rennur það upp fyrir mönnum sem hafa á annað borð fyrir því að kynna sér þetta mál að á fjölmörgum sviðum og í grundvallaratriðum stenst stjórnsýslan á Íslandi ekki þær kröfur sem Evrópusambandið gerir og hyggst gera til okkar í þeim viðræðum sem standa yfir.

Mig langar að biðja hæstv. landbúnaðarráðherra að fara nánar yfir þessi fyrstu viðbrögð sem við höfum fengið frá ríkisstjórninni, vegna þess að þar stangast mjög á það sem við heyrum frá hæstv. utanríkisráðherra og landbúnaðarráðherra sjálfum. Ég vonast til þess að hann komi hér og fari aðeins nánar yfir hvers vegna hann er ósammála þessari niðurstöðu. Landbúnaðarráðherra hefur sagt okkur að hægt sé að gera þá kröfu til okkar að við gerum grein fyrir því fyrir fram hvernig við hyggjumst aðlaga löggjöf okkar áður en samningaviðræður hefjast en utanríkisráðherra er á þeirri skoðun að í þessu felist engin krafa um aðlögun. Það stangast á, það er svo augljóst. Það kallar á þær umræður sem við erum að hefja í dag.

Mig langar líka til að biðja hæstv. landbúnaðarráðherra að bregðast við bréfi Bændasamtaka Íslands þar sem vakin er athygli á því að menn þar hafi fyrir löngu teflt fram því sem þeir kalla lágmarkskröfur Bændasamtakanna. Þeir telja sig hafa fengið stuðning landbúnaðarráðherra við þessar lágmarkskröfur sínar. Nú er komið að þeim kaflaskilum í viðræðunum við Evrópusambandið að það verður að komast á hreint hvort lágmarkskröfur Bændasamtakanna verða grundvöllur fyrir áframhaldandi viðræðum eða hvort menn ætla að (Forseti hringir.) láta Evrópusambandið segja okkur á þessum tímapunkti hvernig þetta eigi allt saman að gerast. Ætlar ráðherrann kannski að fara þá leiðina og hefja undirbúning (Forseti hringir.) að skýrslu um hvernig aðlögunarferlið fer fram? Það kæmi mér á óvart (Forseti hringir.) ef svo væri.