139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að þær kröfur sem settar eru fram í bréfi bæði pólsku forustunnar og í rýniskýrslunni, eru ekki mjög skýrar. Það er ástæða fyrir því. Ástæðan er sú að Íslendingum er nánast í sjálfsvald lagt með hvaða hætti þeir ætla að útfæra hina tímasettu áætlun. Við skulum ekki gleyma því að það var utanríkismálanefnd Alþingis sem fór fram á að samningunum yrði hagað þannig að það er algjörlega tryggt að áður en fyrir lægi jáyrði úr þjóðaratkvæðagreiðslu yrði ekki ráðist í að breyta lögum, reglum eða uppbyggingu íslenskra stofnana. Á það felst framkvæmdastjórnin formlega í fyrsta skipti í rýniskýrslunni. Það er kannski annað þeirra tveggja atriða sem eru söguleg í þeirri skýrslu. Í fyrsta skipti hefur verið fallist formlega á þetta. Þetta var það sem utanríkismálanefnd vildi. Það sem Íslendingar buðu í staðinn var að sýna fram á með tímasettum áætlunum hvenær tilteknar breytingar yrðu gerðar eftir að þjóðaratkvæðagreiðslu sleppir og fram að þeim degi sem Ísland er orðinn fullgildur aðili. Það þarf ekki að koma hæstv. landbúnaðarráðherra eða öðrum neitt á óvart hvað í því felst. Það var rætt í þaula í ríkisstjórninni á sínum tíma. Samninganefndin hafði umboð ríkisstjórnarinnar til að segja hreint út annars vegar að engar breytingar yrðu gerðar áður en þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram, og hins vegar að það yrðu tímasettar áætlanir. Ástæðan fyrir því að þetta er svona opið hjá framkvæmdastjórninni er vitaskuld sú að það er Íslendingum í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir freista þess að útfæra það.