139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það sérkennilega við þetta er að það skuli koma einhverjum á óvart hvar við erum stödd í þessu máli. Auðvitað hlaut að koma að því, úr því að það var niðurstaða meiri hluta Alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu, að við þyrftum að svara grundvallarspurningum. Hér hefur staðið yfir rýnivinna þar sem menn hafa reynt að draga saman ákveðnar upplýsingar, annars vegar við Íslendingar og hins vegar Evrópusambandið. Þeirri vinnu er lokið. Þá kom að næsta versi sem var að hefja hinar eiginlegu samningaviðræður. Þær eru hafnar. Til að hægt sé að halda áfram slíkum viðræðum verða íslensk stjórnvöld að vita hvort þau treysta sér til að gera þær breytingar sem eru óhjákvæmilegar ef menn ætla sér að ganga í Evrópusambandið.

Varðandi landbúnaðinn er ljóst að stofna þarf þessa greiðslustofnun. Það liggur fyrir að setja þarf upp landupplýsingakerfi. Það liggur fyrir að tollverndin sem íslenskur landbúnaður hefur notið fellur niður frá fyrsta degi. Og krafa Evrópusambandsins um innflutning lifandi dýra liggur fyrir. Þetta eru stórar pólitískar spurningar. Auðvitað verður ekki haldið áfram með málið nema afstaða íslenskra stjórnvalda liggi fyrir gagnvart þessum grundvallarspurningum.

Menn geta auðvitað reynt að setja þetta í einhvern tæknilegan búning. Eftir sem áður þurfa menn alltaf að svara þessum stóru spurningum. Veruleikinn vitjar manna nefnilega. Veruleikinn er sá að nú erum við í samningaviðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá verða menn auðvitað að svara grundvallarspurningum. Vandinn sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir er einfaldlega þessi: Það er bullandi ágreiningur um þetta mál, ekki bara meðal þjóðarinnar, ekki bara á Alþingi, heldur í ríkisstjórninni sjálfri. Þess vegna er staðan svona.

Það sem við blasir og allir sjá er að málið er komið í öngstræti. Þetta er orðinn hreinn skrípaleikur og orðið okkur sjálfum til minnkunar. Vitaskuld er það rétt sem hér hefur verið sagt að það eina sem hægt er að gera í stöðunni er að hætta (Forseti hringir.) viðræðum. Ef menn vilja halda þeim áfram einhvern tímann síðar verði það ekki gert nema á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en til viðræðnanna er haldið. (SER: Þjóðin vill halda áfram.)