139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að rýniskýrsla Evrópusambandsins um landbúnaðarmál sem barst hingað í síðustu viku hafi komið sumum á óvart. Sérstaklega held ég að hún hafi komið þeim á óvart sem hafa haldið því fram að enginn skilningur sé innan Evrópusambandsins á því að Ísland er öðruvísi en löndin sunnar í álfunni. En kannski breytir skýrslan samt engu um það því hér berja menn höfðinu við steininn og eru með upphrópanir í stað málefnalegra umræðna. Andstæðingarnir gleðjast auðvitað núna og þykir sem steinn hafi verið settur í götu samninganna þar sem ekki er búið að vinna heimavinnuna. Landbúnaðarráðherrann veit og sagði það áðan að auðvitað verður hann að fylgja ákvörðun Alþingis. Það mun hann gera eftir því sem ég heyrði hann segja hér rétt áðan.

Hvað vantar nú? Það vantar áætlun um það hvernig stofnunum verður breytt eftir að búið er að samþykkja aðildarsamning, hvernig við getum byrjað, frá því að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu, að taka upp það kerfi sem þá á að ríkja, ekki fyrr. Það er mjög sérstakt. Og ég held að andstæðingarnir hafi vonað að í rýniskýrslunni yrði eitthvað sem benti til þess að við mundum ekki ná samningum sem við gætum unað við. En það fór á annan veg. Evrópusambandið veit að Ísland er strjálbýlt land, að landbúnaður er hér með allt öðru sniði en í flestum ríkjum þess, að við erum fá og stjórnsýslan er lítil og tekið verður tillit til þess í samningaviðræðunum.