139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að maður spyr sig eftir þessa umræðu: Hvern er verið að reyna að blekkja? Er utanríkisráðherrann að reyna að blekkja sjálfan sig eða kannski þjóðina? Vill hæstv. landbúnaðarráðherrann ekki horfast í augu við það sem stendur í skýrslunni? Þetta er allt hérna í skjalinu. Ég vona að menn hafi gefið sér tíma til að lesa það. Förum bara yfir punktana frá Evrópusambandinu.

Það er ekki í lagi með greiðslustofnunina. Þið þurfið að gera ráð fyrir því að koma á fót nýrri greiðslustofnun, samkvæmt reglum Evrópusambandsins.

Það er ekki í lagi með landskráningakerfin hjá ykkur Íslendingar, þið þurfið að upplýsa um það hvernig þið ætlið að koma því fyrir.

Þið þurfið að taka greiðslukerfin til endurskoðunar og aðkomu Bændasamtaka Íslands að því hvernig styrkir eru greiddir út.

Þið þurfið að koma á fót landskráningakerfi og framleiðsluupplýsingakerfi líka, vegna þess að það er ekki í lagi.

Hér segir einnig að reglur okkar Íslendinga um innflutning á lifandi dýrum séu ekki í samræmi við Evrópusambandið. Og það segir líka að allt sem varðar mjólkuriðnaðinn í landinu og grænmetisframleiðsluna sé á skjön við reglur Evrópusambandsins. Þetta er allt saman hér, lið fyrir lið. Þetta er allt saman til. Þetta var sent til okkar Íslendinga.

Það er dapurlegt að horfa upp á ráðherrana halda því fram að við höfum fengið svo mikið svigrúm til að hugsa þetta í eigin ranni. Reyndar kemur á óvart að heyra landbúnaðarráðherrann segja að það liggi ekki fyrir til hvers sé ætlast af okkur. Þetta er hér, lið fyrir lið. Hér segir meira að segja að við þurfum að taka til endurskoðunar niðurgreiðslu á rafmagni til grænmetisframleiðslu. En samt eru allir þingmenn í þessum sal meira eða minna sammála um það að ef eitthvað er ættum við að auka niðurgreiðslu til grænmetisframleiðslu í landinu.

Við skulum hætta þessum blekkingaleik og takast á við þau atriði sem Evrópusambandið krefst að við tökum afstöðu til. Ræðum hvort við erum tilbúin til að gera allar þessar viðamiklu breytingar. Það bíður landbúnaðarráðuneytisins og það bíður frekari viðræðna að gera það, vegna þess að kaflinn verður ekki fyrr opnaður. Við skulum horfast í augu við þessa staðreynd en ekki láta eins og (Forseti hringir.) ekkert bréf hafi komið og að Evrópusambandið hafi ekki tekið afstöðu til þess sem ekki er í lagi.