139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að semja þarf um þau atriði sem hann taldi upp. Þau eru tíunduð þarna svo hægt sé að sjá hver er raunverulegur munur á milli íslensks umhverfis og Evrópusambandsins í þeim greinum sem hv. þingmaður nefndi .

Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að þetta sé svo. En nokkur vandi er á höndum að eiga að semja lög, reglugerðir og skipan að nýjum stofnunum í þessu nýja umhverfi áður en búið er að semja um það. Fyrsta skrefið er þá að semja um það og í það þarf að fara nú.

Ég legg áherslu á og hef alltaf gert, að við förum að vilja Alþingis í þessum efnum. Þar er líka skýrt kveðið á um hið skilyrta umboð samninganefndarinnar, þar eru tilgreindir þeir grundvallarhagsmunir sem hún á að hafa að leiðarljósi og þurfi að víkja frá þeim verði málið að fara inn á Alþingi aftur. Það þarf engum að koma á óvart.

Ef ég kem að þeim mörgu sem ganga harðast fram í að komast inn í Evrópusambandið þá vilja þeir nýta öll tæki og tól frá Evrópusambandinu eins og fjárstuðning, gjafaframlög og annað til að aðlaga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu. Út á það gengur umsóknin ekki, eins og við þekkjum. Það má vel vera að Evrópusambandið sé hér að benda okkur kurteislega á að það sé varla hægt, að það sé vandi að ætla að sækja um án þess að fara beint í aðlögun, enda er það óvenjulegt.

Það er álitamál hvers konar áætlunar (Forseti hringir.) Evrópusambandið er að krefjast. Ég mun kappkosta að kanna það rækilega. Ég er reiðubúinn að fara til Brussel og hitta (Forseti hringir.) þar hina háu herra og fá beint til mín hvers er verið að krefjast hér í áætlanagerð, (Forseti hringir.) herra forseti.