139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel rétt að vekja athygli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, sem telur sig vera eins konar yfirforseta hér á þinginu, að málið er núna ekki á forræði flutningsmanns sem er forsætisráðherra vissulega, heldur á forræði allsherjarnefndar og er formaðurinn hér í salnum, hv. þm. Róbert Marshall. Þó að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafi gert þingheimi þann greiða, þar á meðal hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, að vera hér viðstödd töluvert af umræðunni ber henni engin hefðarskylda til þess samkvæmt venjum þingsins, heldur er það hv. formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, sem á að sitja hér og standa eða vera með mann fyrir sig í salnum meðan umræðan fer fram. Þeir sem hafa meiri þingreynslu en ég staðfesta þetta auðvitað með sjálfum sér eða í ræðustól á eftir.