139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá ósk sem komið hefur fram þar að lútandi að hæstv. forsætisráðherra sé hér í salnum meðan þetta mál er tekið til umræðu. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. forsætisráðherra hefur sótt það mjög stíft að málið sé rætt og það fái framgöngu á þinginu. Hæstv. forsætisráðherra tjáði sig mjög víða í fjölmiðlum um helgina um málið og af hverju hún teldi að það þyrfti að fara í gegn.

Það er gríðarlegur skoðanaágreiningur um málið. Það var rætt lengi við 1. umr. Mér finnst ekkert óeðlilegt að krafa komi fram um að hæstv. forsætisráðherra sé í salnum meðan málið er rætt. Ef ekki, teldi ég eðlilegast að taka fyrir önnur mál á dagskránni, mál sem skipta þjóðina meira máli, eins og til að mynda mál númer 24 þar sem á að veita Íbúðalánasjóði heimild til að veita óverðtryggð lán. Hvort haldið þið að fólkinu í landinu finnist skipta meira (Forseti hringir.) máli að ræða skuldamál heimilanna eða stjórnarráðsfrumvarp hæstv. forsætisráðherra? Ég legg til að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) komi í salinn.