139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil rétt til að koma í veg fyrir allan misskilning taka sérstaklega fram að ég hef engar „ambissjónir“, svo ég sletti aðeins, í þá átt að verða yfirforseti og treysti hæstv. forseta þeim sem nú á forsetastóli, og öðrum, vel til þess að stjórna hér fundum.

Það er hreint með ólíkindum að sjá viðkvæmni stjórnarþingmanna fyrir þessari beiðni okkar í stjórnarandstöðunni. Víst er það rétt að málið er í þinglegri meðferð. En það er nú þannig að með frumvarpinu er verið að fela hæstv. forsætisráðherra gífurleg völd. Við erum að gera athugasemdir við það og við viljum gjarnan fá að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um hvernig hún hyggist beita þeim nýju völdum sem hæstv. forsætisráðherra eru falin með þessu frumvarpi. Ég tel á engan hátt hallað á sjálfstæði þingsins þó að þessi ósk komi fram, þvert á móti. Við viljum eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra til þess einmitt að tryggja það að sjálfstæði þingsins hér eftir sem hingað til verði virt.