139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann af því ég skildi hann ekki almennilega — mér fannst hann segja að hann teldi að það ætti að vera sveigjanleiki í fjölda ráðuneyta því að þannig gæti staðið á að heppilegt væri að breyta fjölda ráðuneyta og samsetningu þeirra, en á sama tíma sagði hann að hann teldi að það ætti að vera í höndum þingsins. Telur hann að forsætisráðherra eigi að gera tillögu um einhverja ráðuneytisskiptingu og bera hana svo undir þingið? Ætti það þá að vera í lagaformi eða í formi þingsályktunartillögu eða hvað hafði þingmaðurinn hugsað sér?