139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal bara játa það að ég er yfir höfuð ekki fróður um það sem núverandi aðstoðarmenn ráðherranna gera og er ekki á Facebook þannig (Gripið fram í: Ekki ráðherrann heldur.) að ég get ekki tjáð mig um það. Eins og ég sagði áðan skil ég vel að ráðherrar þurfi að hafa öfluga aðstoðarmenn sér við hlið, a.m.k. veitir ekki af núna.

Ég vil líka vekja athygli á því sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði varðandi aðstoð við þingmenn. Á sínum tíma gáfumst við þingmenn upp fyrir almenningsálitinu. Það var búið að taka um það ákvörðun á sínum tíma að setja upp aðstoðarmannakerfi þingmanna. Það var við lýði í smátíma en þegar harðnaði á dalnum fannst mönnum þjóðráð að fækka aðstoðarmönnum þingmanna. Ég tek eftir því að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra án þess að það sé með nokkrum hætti á öðrum vettvangi reynt að hyggja að nýju að hugmyndum um aðstoðarmenn þingmanna.