139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands. Stærsta breytingin, og sú sem hefur vakið einna mesta athygli okkar þingmanna, er sú að fjöldi ráðuneyta og verkefnaskipting þeirra verður ekki lengur lögfest.

Meiri hluti allsherjarnefndar hefur lagt fram ákveðnar breytingar á orðalagi var í frumvarpinu. Ekki er lengur lagt til að ráðuneytin verði talin upp, að það verði ákveðin hámarkstala, heldur liggi ákvörðunarvaldið um ráðuneyti hjá stjórnvöldum, þ.e. forsætisráðherra. Eins og kemur fram í breytingartillögu meiri hluta allsherjarnefndar segir í 1. gr. að ráðherrar starfi í umboði Alþingi.

Í 2. gr. segir síðan, með leyfi forseta:

„Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, samanber 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Margir þingmenn sem hafa komið hingað upp hafa lagst alfarið gegn þessari tillögu. Helstu rökin fyrir því eru þau að það er talið að þarna sé verið að veikja Alþingi, sem sé andstætt tillögum þingmannanefndarinnar og ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis.

Það sem mig langar hins vegar til að ræða hér er traust. Þegar traust er á milli manna er oft miklu auðveldara að koma róttækum breytingum í gegn. Í svörum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nú í morgun kom mjög skýrt fram að mikill skortur er á trausti innan ríkisstjórnarinnar og milli stjórnarflokkanna, eins og við höfum jafnvel séð í ályktunum frá þingflokkunum. Einnig er mjög mikill skortur á trausti á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við sjáum því að það ríkir vantraust og ekki bara hér á Alþingi heldur ríkir líka vantraust í samfélaginu á okkur sem störfum hér.

Við vorum hins vegar kosin til að stjórna þessu landi, okkur var treyst af þjóðinni til að fara með hennar mál. Það traust felur í sér að maður þarf að vera tilbúinn til að leita lausna og jafnvel sætta sig við ákveðnar málamiðlanir.

Ég sat í stjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins sem lagði fram skýrslu á flokksþingi 2007 þar sem lagt var til að 15. gr. stjórnarskrárinnar yrði höfð til hliðsjónar þegar kæmi að verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins.

15. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Þar sem forsetinn er í stjórnarskránni ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum er það í raun handhafi framkvæmdarvaldsins, forsætisráðherra, samanber ofangreint, sem mundi skipta verkum og er grunnur þeirrar tillögu sem hér er komin fram hjá meiri hluta allsherjarnefndar.

Í skýrslu stjórnarráðsnefndarinnar var þó lögð áhersla á að slíkur sveigjanleiki, eins og boðaður er í 15. gr. stjórnarskrárinnar, mætti ekki leiða til lausungar eða sífelldra breytinga. Þetta má líka sjá merki um í nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar sem hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson skrifa undir. Þar tala þeir um að núgildandi fyrirkomulagi hafi einmitt verið komið á til að koma í veg fyrir ákveðna lausung sem var þá hvað varðaði skipulag Stjórnarráðsins.

Við lögðum líka áherslu á að ekki mætti kljúfa málefnin upp í of litlar einingar. Við lögðum því til að Stjórnarráðinu yrði skipt í 60 skrifstofur og ekki mætti leggja verkefni, ólík verkefni, til ráðherra sem væru andstæð. Við megum ekki gleyma því að í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis og í umræðum í þingmannanefndinni sem ég sat í var niðurstaðan ekki bara sú að styrkja þyrfti Alþingi, heldur er líka talað um mikilvægi þess að styrkja Stjórnarráðið, að gera bæði og. Við megum því ekki veikja Alþingi en við eigum sem sagt að styrkja það samhliða og við erum að styrkja lagaumhverfi Stjórnarráðsins.

Ég ræddi hversu brýnt væri að traust væri til staðar til að fara í þessar breytingar og vil ég nefna annan landbúnaðarráðherra en þann sem nú situr þann stól sem dæmi um það hvað hægt er að gera ef traust ríkir á milli aðila. Þegar fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, tók við ráðuneyti sínu held ég að hann hafi sjálfur talað um að hlutirnir gerðust á hraða snigilsins í ráðuneytinu. En hlutirnir gerðust töluvert hraðar, þó að ekki færi mikið fyrir þeim breytingum, þegar hann var í ráðuneytinu. Honum tókst að sameina stjórnsýslu greinarinnar í eina stofnun, Matvælastofnun, og flytja hana út á land, sem hefur iðulega valdið mikilli ólgu í íslenskri stjórnsýslu og honum tókst líka að gera umfangsmiklar breytingar á menntakerfinu og þeim samningum og því starfsumhverfi sem bændur bjuggu við. Ég tel að það að þetta skyldi allt hafa gerst án mikillar umfjöllunar í blöðum eða án þess að vekja nokkra athygli hafi einmitt byggst á því að það ríkti traust. Þeir sem hlut áttu að máli þekktu hann og treystu honum og vissu að hann var að gæta hagsmuna þeirra. Það höfum við ekki hér, þetta traust er ekki til staðar.

Í 1. umr. ræddi ég einmitt nokkrar hugmyndir að lausnum. Við virðumst svo oft vera búin að grafa okkur niður í skotgrafir, vera tilbúin til að skjóta hvert á annað, sannfærð um að við séum með einu réttu niðurstöðuna. Eflaust var ég það líka sjálf þegar ég sat í stjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins og við vorum að horfa til þeirrar reynslu sem við bjuggum að af því að hafa verið í mjög góðu stjórnarsamstarfi með öðrum flokki í töluvert mörg ár þar sem ríkti töluvert mikið traust.

Í 1. umr. kom ég með nokkrar hugmyndir að lausnum. Mér finnst mjög leitt að ég sé ekki þess merki í þeim gögnum sem hér hafa verið lögð fram að þessar hugmyndir hafi verið ræddar í allsherjarnefnd. Ein af þeim var sú að þegar búið væri að taka ákvörðun um verkaskiptingu ráðuneyta og tillaga um ráðherra lægi fyrir, færi skipan mála fyrir viðkomandi fagnefnd Alþingis og síðan yrðu greidd atkvæði um tilnefninguna af Alþingi. Þar með var verið að staðfesta að þetta væri í umboði Alþingis. Þar var ég sem sagt að horfa til ákveðinna fyrirmynda í Bandaríkjunum og við sjáum líka hvað varðar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Stuttu áður en ég hélt þessa ræðu hafði ég einmitt setið fyrir framan tölvuna og horft með mikilli athygli á forval á framkvæmdastjórum Evrópusambandsins sem var í beinni útsendingu. Þar gerðist það þannig að þeir fulltrúar sem voru tilnefndir frá aðildarríkjunum þurftu að mæta fyrir viðkomandi fagnefnd og svara spurningum sem sýndu fram á að þeir vissu hvað þeir væru að fara að gera. Eva Joly var í forsvari fyrir eina nefnd þar og ég held að ég sé að fara rétt með þegar hún sagði að afleiðingar af spurningum og svörum sem bárust frá þeim frambjóðanda til svokallaðra framkvæmdastjóra, sem er sambærilegt og ráðherrar hjá okkur, hafi verið þær að viðkomandi dró umsókn sína um að verða framkvæmdastjóri til baka. Viðkomandi vissi hreinlega ekki nógu mikið til að hægt væri að treysta honum til að taka við þessu verkefni.

Önnur tillaga sem ég talaði um var að setja inn í 6. gr. frumvarpsins að aukinn meiri hluti ríkisstjórnarinnar yrði að samþykkja að færa verkefni á milli ráðuneyta eða jafnvel að menn yrðu að vera sammála innan ríkisstjórnarinnar um að færa verkefni á milli ráðuneyta. Eftir vandlega íhugun — mér þótti áhugavert að sjá í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd að þeir bentu á svipaða hluti og ég — hef ég ákveðið að leggja fram breytingartillögu við breytingartillögu meiri hluta allsherjarnefndar við 2. gr., sem er svohljóðandi:

„Tillagan“ — sem sagt tillaga forsætisráðherra — „skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem rædd skal og afgreidd við eina umræðu eftir reglum um síðari umræðu, sbr. ákvæði þingskapa Alþingis, áður en forsetaúrskurður er gefinn út.“

Ég get lesið upp úr nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar — rökstuðningurinn er nánast samhljóða — að með þessu væri tryggt að meiri hluti væri á Alþingi fyrir breytingunum, það lægi fyrir að stuðningur væri hjá meiri hluta Alþingis við þessa breytingu. Þar værum við að afgreiða málið samkvæmt þeim formreglum sem þingsköp gera ráð fyrir og eiga einmitt að stuðla að vandaðri málsmeðferð og fram mundi fara þessi opna og lýðræðislega umræða sem við eigum öll að vera sammála um að skipti máli, sem æðsta lýðræðisstofnun landsins.

Þarna værum við að mæta þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á frumvarpið, að í því felist valdframsal frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Við mundum þá fá tækifæri sem þingheimur til að fjalla um tillögu forsætisráðherra og fyrirkomulagið yrði þá mjög sambærilegt við það þegar vantrauststillögur koma inn í þingið. Þetta væri sem sagt í ljósi þess að ríkisstjórn á að sitja í skjóli Alþingis og er þá í samræmi við þingræðisregluna sem meiri hluti allsherjarnefndar talar einmitt um í nefndaráliti sínu.

Hins vegar væri ekki hægt að breyta tillögunni, ekki breyta fjölda ráðuneyta eða málefnaskiptingu, og þar með væri það ekki heldur lengur þannig, eins og tillaga meiri hlutans og frumvarp forsætisráðherra gerir ráð fyrir, að við þingmenn mundum þá frétta af þessu nánast með fréttatilkynningu á vegum forsætisráðuneytisins eða lesa um það í blöðunum eins og virðist vera ansi algengt þegar menn vilja ekki taka þessa umræðu hér í þinginu. Við mundum því vera að ítreka þingræðisregluna, stuðningur stjórnarliða mundi liggja fyrir varðandi breytingar á ráðuneytum og væntanlega hvað varðar þá ráðherra sem munu sitja í ráðherrastólunum. Við mundum einnig vera að gæta að eftirlitshlutverki okkar með framkvæmdarvaldinu og sveigjanleikinn mundi tryggja að það mundi ekki leiða til þessarar lausungar eða ómálefnalegra forsendna fyrir breytingum á ráðuneytum eins og margoft er búið að ýja að hér í ræðustóli í dag og í þessari umræðu. Það gæti hugsanlega verið þannig að við gætum jafnvel greitt atkvæði um hvern og einn ráðherra eins og við höfum svo sem séð í tillögum sem hafa komið fyrir þingið.

Þegar ég ræddi þessa hugmynd var mér bent á að þetta væri ekki nauðsynlegt að mati viðkomandi, að það væri einfaldlega hægt að bera upp vantrauststillögu á forsætisráðherra og þar með ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra.

Þá vil ég enn á ný benda á svör hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í morgun, sem sýnir einmitt hversu illfær sú leið er. Hann virðist kunna ágætlega við sig í ríkisstjórn þrátt fyrir að hún sé að vinna markvisst gegn hugsjónum hans sem stjórnmálamanns og sýn á það hvað sé best fyrir samfélagið. Samt vill hann gjarnan sitja í sínum stól, vill ekki breyta ráðuneytunum, væntanlega vegna þess að hætta er á því að hann fengi þá ekki lengur að verma ráðherrastólinn. Ég efast því stórlega um að ráðherrann væri tilbúinn til að samþykkja vantraust á sjálfan sig eða ríkisstjórnina en samhliða virðist hann hafa miklar áhyggjur af skipan mála í Stjórnarráðinu.

Þessi tillaga mun koma hér fram og ég mun dreifa henni og mér þætti mjög áhugavert að heyra frá samþingmönnum mínum hvað þeim finnst um þessa hugmynd eða hvort þeir sjái fyrir sér einhverja aðra leið til að við getum annars vegar komið til móts við mjög skýr ákvæði í 15. gr. stjórnarskrárinnar en um leið tryggt þingræðið og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu og finna lausn sem virkilega kemur til móts við það vantraust sem er til staðar, og er að mínu mati orðið stórt vandamál í því hvernig það endurspeglast í þeirri óstjórn sem er hér innan lands.

Í 1. umr. tók ég einnig fram að ég teldi að ráðherrar ættu að víkja af Alþingi þegar þeir gerast ráðherrar samanber þá frumvarp Sivjar Friðleifsdóttur þess efnis. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur líka lagt þess háttar breytingu til og í hinu margumtalaða frumvarpi stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins var einnig lagt til að þetta færi inn í lög um Stjórnarráðið sjálft.

Það eru margir orðnir sammála því að ráðherrar eigi að víkja af Alþingi þegar þeir taka sæti til að skerpa skilin á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins en alltaf virðist eitthvað stoppa okkur. Þegar ég sat hér og hlustaði á andsvörin sem voru á undan ræðu minni var einmitt verið að tala um þessa fjölgun aðstoðarmanna. Meiri hluti allsherjarnefndar, og þá væntanlega stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar, telur að það sé tiltölulega lítið mál að fjölga aðstoðarmönnum, ef við miðum við 10 ráðuneyti, upp í 23. Að sama skapi höfum við haft miklar áhyggjur af þeim kostnaði sem mundi felast í því ef ráðherrar vikju sæti hér á Alþingi, það yrði svo ofboðslega dýrt að taka inn 10 nýja þingmenn í staðinn.

Hvernig væri að við mundum svissa þessu? Í staðinn fyrir að bæta við 10 nýjum aðstoðarmönnum bætum við 10 nýjum þingmönnum inn í þingið; og kannski stjórnarandstaðan geti fengið hina þrjá til að aðstoða sig við vinnu frumvarpa á nefndasviði Alþingis. Það er talað um að þetta kosti okkur milli 100 og 130 milljónir. Af hverju finnst okkur þetta ekkert mál eins, það sem hér er verið að leggja til, en okkur finnst hins vegar stórmál að bæta við fleiri þingmönnum sem gætu þá unnið verkin með okkur hér innan dyra og starfsmönnum sem geta aðstoðað okkur við það sem við eigum að vera að gera, að leggja fram mál og vinna að þeim málum sem koma inn í þingið? (Gripið fram í: …ódýrara …)

Nei, það er nefnilega málið. Aðstoðarmenn ráðherra eru bara með mjög sambærileg launakjör (Gripið fram í.) og almennir þingmenn, jafnvel betri. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Ekki umræðu úti í sal.)

Þetta er því önnur tillaga sem ég mundi telja að allsherjarnefnd ætti tvímælalaust að skoða á milli 2. og 3. umr., af hverju okkur finnst þetta vera svona ótrúlega erfitt og hvort meiri skynsemi gæti ekki verið fólgin í þessu en þeirri tillögu sem liggur fyrir. Þegar fjárhagur ríkisins fer hins vegar að batna, vonandi með góðri vinnu okkar þingmanna, gæti alveg komið til greina að mínu mati að bæta við aðstoðarmönnum hjá ráðherrum.

Í 1. umr. talaði ég einnig um mikilvægi þess að það yrði skilgreint mjög vel af hvaða tilefni ætti að halda ríkisstjórnarfundi og hvaða málefni ætti að taka þar upp. Í frumvarpinu er í því sambandi talað um nýmæli í lögum, lagafrumvörp sem ráðherra hyggst leggja fram á Alþingi sem stjórnarfrumvörp og önnur málefni sem bera á fyrir forseta Íslands til staðfestingar. Einnig er talað um að taka eigi upp mikilvæg stjórnarmálefni og til mikilvægra stjórnarmálefna teljast til dæmis reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt.

Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til að skerpa aðeins á þessu þannig að tillögur til þingsályktunar verði einnig að leggja fyrir ríkisstjórn enda geta þær verið mjög mikilvægar, samanber mikinn áhuga okkar þingmanna á ályktun Alþingis um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Meiri hlutinn leggur einnig til að á ríkisstjórnarfundum verði að skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess og þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar. Ég mundi gjarnan vilja fá nánari skýringu á þessari viðbót og þá sérstaklega hvort þessar upplýsingar, sem er verið að tilkynna í aukamálsgrein sem á að bætast við, eiga að flokkast sem mikilvæg stjórnarmálefni eða nýmæli í lögum eða hvort það sé hvorugt.

Ástæðan fyrir því að ég legg mjög mikla áherslu á að þetta komi mjög skýrt fram er sú að þessi orðasambönd er að finna í 17. gr. stjórnarskrárinnar um ráðherrafundi eða fundi ríkisstjórnar. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta eins skýrt og við mögulega getum vegna þess að þetta er meðal annars grundvöllur þess ef við þurfum aftur að taka afstöðu til laga um ráðherraábyrgð. Eitt af því sem mikið var rætt í umræðunum um ákæru fyrir landsdómi, sem er nú til meðferðar, var hvað er nákvæmlega mikilvægt stjórnarmálefni. Erum við hér með búin að skilgreina það nógu vel? Þó að við getum hins vegar flest haft sameiginlegan skilning á því hvað eru nýmæli í lögum hefur hugtakið eða orðasambandið „mikilvæg stjórnarmálefni“ flækst aðeins meira fyrir okkur. Þá er hún einmitt mjög mikilvæg þessi viðbót sem við höfum verið að leggja til hér í breytingartillögum meiri hlutans. Eigum við að telja að þetta séu þá mikilvæg stjórnarmálefni?

Annað sem ég nefndi líka — og ég benti á þegar ég kom sem varamaður inni í allsherjarnefnd þegar málið var til meðferðar þar — er að hafa í huga hvenær ríkisstjórnin, hver einasti ráðherra, ber sameiginlega ábyrgð í ríkisstjórn. Við höfum viljað halda okkur mjög fast við þá skilgreiningu að það séu bara einstakir ráðherrar sem bera ábyrgð á sínu málefnasviði og það er ítrekað í 1. gr. eins og verið er að leggja hana til.

Í lögum um ráðherraábyrgð segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni.“

Þegar ráðherra er því að uppfylla þau skilyrði sem verið er að setja fram í þessu frumvarpi og aðrir ráðherrar taka þátt í þeirri umræðu eru þeir allir farnir að bera sameiginlega ábyrgð. Og ef við minnumst enn á það mál sem er nú fyrir landsdómi, lykilástæðan fyrir því að aðrir ráðherrar báru ekki ábyrgð á því sem gerðist var sú að málefnið var aldrei tekið upp á ráðherrafundi, efnahagsástandið var aldrei tekið upp. Ég get því ekki séð að það standist, þetta sem er verið að leggja til, að þeir eigi bara að bera ábyrgð á sínu málefnasviði, þ.e. ef nýmæli eða mikilvæg stjórnarmálefni eru ekki tekin upp í ríkisráði eða á ráðherrafundi.

Hvað varðar breytingar á frumvarpinu er ég hins vegar mjög sátt við breytingar á skráningu og birtingu fundargerða ríkisstjórnarfunda og almennt um skráningu upplýsinga á milli ráðuneyta og við aðila utan þess sem og ákvæði, sem var eitt af því sem við í þingmannanefndinni vorum ekki með hugmyndir um, um að taka fundina upp. Og ég geri ekki athugasemd við að þær upptökur verði geymdar í 30 ár áður en þær verða gerðar opinberar. Það er einmitt mjög gott líka að skerpa á ákvæðum hvað varðar ráðherranefndir og að það leysi ekki ráðherra frá því að bera mál upp í ríkisstjórn, samanber 6. gr.

Það var líka mjög ánægjulegt að sjá tillöguna varðandi málstefnuna sem og það að setja eigi siðareglur fyrir Stjórnarráðið allt. Ég hef hins vegar haft töluverðar áhyggjur af sjálfstæðum stofnunum og það hefur eiginlega komið aftur að þessu, hvað sjálfstæð stofnun er og hvernig ráðherra ber ábyrgð á stofnun sem á að vera sjálfstæð. Innan laga um ráðherraábyrgð virðist ráðherra bera ábyrgð á því sem stofnunin gerir. Punktur. Þó að það komi fram skýrt í lögum um viðkomandi stofnun að hann beri ekki ábyrgð á því hvernig viðkomandi stofnun hegðar sér finnst mér það mjög óskýrt. Það er sem sagt óskýrt í verklagi og lögum hvernig ráðherrar eiga nákvæmlega að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart sjálfstæðum stofnunum og þetta var einmitt sérstaklega áberandi í aðdraganda hrunsins þar sem lykilstofnanir eins og Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn voru svokallaðar sjálfstæðar stofnanir og það varð jafnvel uppi mikill ágreiningur á milli ráðherra hvernig viðkomandi stofnanir ættu að sinna hlutverki sínu.

Það er ákveðin viðleitni í frumvarpinu og líka ákveðin viðleitni í breytingartillögunum hvað þetta varðar. Á bls. 34 í skýrslunni Samhent stjórnsýsla er talað um eftirlit með fjárráðum og eignum, sem er komið hérna inn í frumvarpið — verið er að leggja til nákvæma útfærslu á því í breytingartillögunum. Það er líka talað um skyldu til frumkvæðis að stefnumótun á málasviði þeirra sem ég átti svolítið erfitt með að finna. Það er hins vegar tekið á varðandi skyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um almenna stefnu en ekki einstök mál og tryggja að upplýsingarnar geti gengið frá stjórnvaldi til ráðuneytis. Það er því verið að reyna að koma til móts við þetta með ákveðnu móti en mér finnst að menn þurfi að taka betur á því hvernig ábyrgð ráðherra er háttað gagnvart sjálfstæðri stofnun og þá sérstaklega varðandi það hvort við eigum að vera með sérstakar stjórnir sem millilið. Hvert er hlutverk þeirra í sjálfu sér annað en að vera kannski hússtjórn?

Ég hef tekið eftir því í umræðunni að skýrsla okkar framsóknarmanna hefur vakið þó nokkra athygli og vil ég því nefna að þarna eru líka nokkur atriði sem ég sakna mjög í upprunalega frumvarpinu og í breytingartillögunum. Það er þetta að geta skipað ráðherra án ráðuneytis. Það var líka vegna reynslu okkar framsóknarmanna að lagt var til að hægt væri að skipa aðstoðarutanríkisráðherra vegna þess að utanríkisráðherra þarf oft að vera langtímum saman erlendis. Og eins og ég var að benda á sitja ráðherrar ekki á þingi meðan þeir gegna ráðherraembætti. Ég mundi vilja óska eftir því að allsherjarnefnd, þegar málið fer þangað á milli 2. og 3. umr., skoði þetta sérstaklega, hvort ekki sé möguleiki á því að nýta tækifærið. Ég vil þá beina því sérstaklega til hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, sem hefur einmitt talað fyrir því að ráðherrar sitji ekki á þingi þegar þeir gegna ráðherraembætti, að þau velti fyrir sér hvort möguleiki sé á að setja þetta inn í lögin um Stjórnarráðið í staðinn fyrir, eins og var verið að horfa á varðandi þingsköpin, eða, sem væri náttúrlega langbest, að það færi hreint og beint inn í stjórnarskrána.

Ég held að ég sé hér með búin að fara í gegnum flestar þær ábendingar sem ég hafði hvað varðar þetta mál. Það er ósk mín að við finnum leið til að vinna okkur út úr þessu, að við finnum kannski vott af þessum vilja hjá stjórn og stjórnarandstöðu til að vinna saman að því að finna ákveðna lausn. Það hefur að vísu ekki farið mjög mikið fyrir þeim vilja hingað til.