139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við framsóknarmenn séum sammála um það að ef við förum í einhverjar breytingar viljum við að þær skili ákveðnum árangri. Það gæti vel verið að skynsamlegast væri af okkur framsóknarmönnum að styðja þessa breytingu vegna þess að það væri væntanlega besta leiðin til að sjá til þess að ríkisstjórnin mundi springa. Það getur vel verið að menn hafi bara áhyggjur af einstökum ráðherrum.

Hvað mig varðar alla vega, ég get fyrst og fremst bara talað um mína afstöðu og þá vinnu sem ég hef innt af hendi innan Framsóknarflokksins, í ljósi aðstæðna í samfélaginu í dag og innan þingsins get ég ekki stutt þá tillögu sem liggur fyrir frá meiri hlutanum hvað varðar nákvæmlega það ákvæði sem við ræðum, um skipan ráðuneyta. Ef þeirri tillögu sem ég hyggst leggja fram yrði hins vegar bætt við þar sem tryggð væri (Forseti hringir.) ákveðin lýðræðisleg málsmeðferð mundi ég endurskoða hug minn hvað þetta varðar.