139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem mér finnst ástæða til að bregðast við af því að hv. þingmaður leitaði eftir því. Það er í sambandi við þær hugmyndir sem hún nefndi varðandi breytingar á ráðuneytum, þ.e. að tillögur þar að lútandi fengju einhvers konar þinglega meðferð, hugsanlega í formi þingsályktunartillögu, eftir ákveðnum reglum sem hún gat um.

Til að bregðast við þessari hugmynd eða tillögu strax, ég áskil mér nú rétt til þess að skoða hana nánar og útfærslu hennar, þá finnst mér hún til bóta miðað við frumvarpið í þeim búningi sem það er nú. Með þessu móti væri komið til móts við mörg af þeim sjónarmiðum sem ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefndum í nefndaráliti okkar um þörfina á því að þingið kæmi að þessari ákvörðun með einhverjum hætti. Hins vegar vil ég halda því til haga (Forseti hringir.) að ég tel ekki stórfellda galla á því fyrirkomulagi að þessir hlutir séu ákveðnir með lögum.