139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvar hans. Það hefur verið einkar ánægjulegt, þegar ég hef fengið að koma í allsherjarnefnd, að fylgjast með því hvernig þingmaðurinn nálgast þau verkefni sem hann fæst við; hann gerir það yfirleitt mjög málefnalega og er opinn fyrir nýjum hugmyndum.

Ég segi ekki að þessi hugmynd mín sé að einhverju leyti fullsköpuð eða fullkomin, að sjálfsögðu ekki, heldur er þetta er tillaga sem ég er að vonast til að menn geti rætt og komist að einhverri niðurstöðu um til að við getum fundið lausn sem tekur á þeim mikla vanda sem ég var að ræða sem er vantraust á milli stjórnarflokkanna og á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.