139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ágætisræðu sem var mjög málefnaleg og líka lausnamiðuð.

Ég staldraði við eitt í ræðu hv. þingmanns. Hún sagði í upphafi ræðu sinnar að henni fyndist Stjórnarráðið og stjórnsýslan frekar þunglamaleg og það væru múrar á milli ráðuneyta. Þar er ég algjörlega sammála hv. þingmanni. Þegar hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu lét ég í ljós þá skoðun mína við 1. umr. að ég teldi einmitt að 21. gr. í frumvarpinu gengi ekki nægilega langt. Mér finnst að það ætti að vera þannig í lögunum að ráðið yrði inn í Stjórnarráðið í heild sinni og því væri hægt að færa til starfsfólk í Stjórnarráðinu án þess að það sé eins og í 21. gr. þar sem það er einungis hægt með samþykki beggja ráðuneyta og viðkomandi starfsmanns. Mér finnst þetta ekki ganga nægilega langt og sé ekki neina breytingartillögu þess efnis í breytingatillöguskjali meiri hluta hv. allsherjarnefndar þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hvort sú umræða hafi farið fram í nefndinni, þar sem ég á ekki sæti þar, að ganga enn lengra en gert er. Það er mín skoðun að það sé miklu skilvirkara og skynsamlegra, eins og hv. þingmaður benti réttilega á þegar menn reka fyrirtæki og annað, að hægt sé að færa starfsfólk til innan deilda. Þá fyndist mér eðlilegra að breyta því núna við samþykkt þessara laga að ráða mætti viðkomandi einstaklinga inn í Stjórnarráðið og færa þá hugsanlega til eftir álagi eða mismunandi áherslum þannig að við sætum ekki alltaf uppi með einhvers konar göngudeildir í ráðuneytunum áfram eins og verið hefur í gegnum tíðina.