139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég sá þetta hins vegar ekki þannig fyrir mér að henda ætti starfsfólkinu til og frá. Ég var að hugsa um þessa múra eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns. Nú þekki ég það af mínum stutta þingferli að það er mjög misjafnt álag á milli ráðuneyta, til að mynda í sambandi við fjárlagagerðina, fjáraukalögin og ríkisreikninginn í fjármálaráðuneytinu, það er gríðarlega mikið álag á vissum tímum þar. Þá sá ég fyrir mér að það væri hægt að færa til fólk sem hefði þekkingu á vissum sviðum í tiltekin verkefni í ákveðinn tíma til að við gætum þá komist hjá því verklagi sem tíðkast í dag — við erum ekki búin að samþykkja ríkisreikning 2009 enn þá. Það er það sem ég var að hugsa, en ekki að gefa ráðherrum, skrifstofustjórum og ráðuneytisstjórum heimildir til að henda fólki á milli í ósambærileg störf eða eitthvað svoleiðis.

Þetta eru svo sem áhugaverðar umræður og hv. þingmaður bendir réttilega á að menn þurfi að ræða þetta til hlítar til þess að komast að þeirri niðurstöðu að þetta muni þá virka vel en ekki verða enn þá verra.