139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna og þær vangaveltur sem fram komu hjá henni. Það er tvennt sem mig langaði að ræða og hvort tveggja snertir formfestu, annars vegar varðandi fundargerðir en ég deili þeim vangaveltum hv. þingmanns varðandi hljóðupptökur af ríkisstjórnarfundum og hins vegar ræddum við í þingmannanefndinni um nauðsyn þess að þingið, sem er aðaleftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu, vissi hvað fram færi á ríkisstjórnarfundum til að styrkja eftirlitshlutverk þess.

Það er búið að breyta nokkru í breytingartillögum allsherjarnefndar varðandi fundargerðir og skráningu í trúnaðarmálabók og annað sem mér sýnist ágætt frá 1. umr. í vor, en ég sá ekkert þar um birtingu fundargerða, þ.e. hvenær þær yrðu birtar. Það er lykilatriði að vita hvað var talað um ef menn ætluðu að fylgjast með því hvaða mál væru á borðum ríkisstjórnarinnar næstu viku á eftir og hvaða niðurstaða hefði orðið þar um. Ég tek heils hugar undir að það að hljóðrita umræður þar og birta eftir 30 ár hefur ekkert með eftirlitshlutverk þingsins að gera, það er meira sagnfræði. Ég tek líka undir það með þingmanninum og óttast nokkuð að það mundi hafa neikvæð áhrif á umræðuna og færa hana hugsanlega frá ríkisstjórnarfundunum þannig að menn gætu ekki brugðist við málum sem afstaða væri tekin til.

Hitt málið sem ég ætlaði að ræða við þingmanninn læt ég bíða seinna andsvars en það snertir líka formfestu.