139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti 2. minni hluta, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, er einmitt fjallað um það og þar nefnir hún hv. þm. Árna Þór Sigurðsson. Umræðan var vegna áforma forsætisráðherra eða þáverandi ríkisstjórnar 2006 eða 2007 um að sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið.

Þá sagði sá ágæti hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, með leyfi forseta:

„Ég ætla að lokum, frú forseti, að segja það að mér finnst ófullnægjandi að allsherjarnefndin ein fjalli um þetta mál. Hér er um stórt mál að ræða sem snertir margar fagnefndir í þinginu. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að senda það jafnframt til skoðunar og umsagnar í einstökum fagnefndum. Ég mun leggja það formlega til við afgreiðslu málsins, þegar því verður vísað til nefndar, að það fari jafnframt til viðkomandi fagnefnda.“

Ég held að þetta segi meira en mörg orð. Þarna fer einn af öflugri þingmönnum stjórnarliðsins og taldi hann á þeim tíma sem ráðuneytin voru sameinuð að þar þyrftu fleiri fagnefndir augljóslega að koma að. Ég held (Forseti hringir.) að það hefði verið skynsamlegt í þessu stóra máli að vísa því til fleiri nefnda og að menn mundu (Forseti hringir.) reyna að ná víðtækari sátt en orðin er.