139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á marga þætti í ræðu sinni. Það var eitt atriði sem ég vildi inna hann aðeins nánar um og það snertir þá breytingartillögu eða breytingu sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til varðandi ríkisstjórnarfundi, þ.e. hljóðupptökur af ríkisstjórnarfundum. Hv. þingmaður hafði, eftir því sem ég best heyrði, efasemdir um þá tillögu og taldi að það gæti leitt til þess að þær umræður sem ráðherrum gætu þótt viðkvæmar á einhverjum tímapunkti mundu færast út fyrir ríkisstjórnarfundi. Ég skildi hann svo að hann teldi að það væri galli.

Nú felst í tillögunni að hljóðupptökurnar skuli varðveita í 30 ár, sem eðli málsins samkvæmt þýðir að þær hafa kannski fremur sagnfræðilegt gildi en gildi í stjórnmálaumræðu samtímans eða því eftirliti sem við á þingi eða fjölmiðlar eða aðrir eiga að hafa með ríkisstjórn og ráðherrum.

Ég velti fyrir mér: Teldi hv. þingmaður að til greina kæmi að stytta þann tíma sem hljóðupptökurnar eru bundnar trúnaði? Þá hugsa ég það í samhengi við það sjónarmið sem fram kom í máli hv. þingmanns um að jafnvel ætti að birta fundargerðir ríkisstjórnarfunda opinberlega þegar í stað en ekki að bíða með það í eitt ár, sem reyndar er ekki kveðið á um í þessu frumvarpi heldur í breytingum við frumvarp til upplýsingalaga.