139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða. Við gætum tekið til að mynda reynsluna af hinu stjórnsýslustiginu, þar eru allir fundir opnir og almenningur getur haft greiðan aðgang að fundunum, jafnvel setið í salnum, eins og við þekkjum frá sveitarstjórnarstiginu, nema þegar fjallað er um trúnaðarmál þar sem fundir eru lokaðir og fundargerð færð í trúnaðarmálabók.

Ég er ekki að leggja það til að við mundum taka það upp á ríkisstjórnarfundum, ég tel eðlilegt að ráðherrarnir fjalli um mál án þess að þar sitji þúsund manns inni og hlusti. Hér erum við að tala um að öll mál, jafnt þau sem ekki gildir um neinn trúnaður og önnur mál, séu tekin upp.

Þá komum við nefnilega að því: Af hverju á að hafa þessa 30 ára reglu? Snýst hún þá um þessi trúnaðarmál? Gilda þá sambærilegar reglur og um önnur trúnaðarmál sem áttu samkvæmt upplýsingalögunum í byrjun að vera geymd í 110 ár — ég man ekki hvort það var komið niður í 80 ár — og um mál almenns eðlis og eru ekki færð í trúnaðarmálabók? Það eru til upptökur af þeim. Samkvæmt upplýsingalögunum eru uppi hugmyndir um að birta þær eftir eitt ár.

Það er augljóst að þarna skortir á að hugsa þetta tvennt saman. Ég þá eftir að heyra þau rök að það sé hreinlega skynsamlegt að vera með hljóðupptökur af fundunum. Það sem ég óttast einmitt er að einhver mál verði ekki rædd á fundi, sérstaklega í ljósi þeirra hugmynda sem eru í stjórnarráðsfrumvarpinu, og að viðkomandi ráðherra, sem hugsanlega hefði þá mótmælt því eða bókað andstöðu við málið (Forseti hringir.) missir af tækifæri til að koma sjónarmiði sínu á framfæri. (Forseti hringir.) Ég er ekki viss um að ég væri til í að stytta frestinn. (Forseti hringir.) Ég vil fyrst og fremst að þessi mál verði keyrð saman, upplýsingalögin og stjórnarráðsfrumvarpið.