139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Ég held nú að þarna sé kjarninn í þessari umræðu og það sem ég endaði ræðu mína á, ég tel einfaldlega að málið sé ekki vaxið til þess að taka það úr nefnd og gera að lögum á þessum septemberstubbi. Ég held að það komi nokkuð skýrt fram að þær breytingar sem gerðar voru á síðasta fundi allsherjarnefndar þess efnis að setja inn þessar hljóðupptökur hafi ekki endilega verið yfirvegaðar og skynsamlegar og að menn hafi ekki alveg vitað hvað þeir voru að gera. Ég tel að hér hafi frekar verið orðið við tillögum tveggja manna sem ellegar hefðu greitt atkvæði gegn frumvarpinu og það hefði þá ekki komið til umræðu á þinginu. Hvort hægt sé að keyra þessi lög saman í sátt og samlyndi á októberþinginu veit ég ekki, en ég held að það sé alla vega mjög óskynsamlegt að reyna að klára málið núna á næstu þremur dögum eins og til stendur.