139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Skipulag þingstarfa síðustu missiri hefur náttúrlega verið allt upp í loft, einhvern veginn út og suður, og þingmenn svo sem orðnir vanir því. Það hlýtur að vera eðlileg krafa samt að einhver regla komist á óreiðuna, að menn fari a.m.k. eftir því sem sagt er og það gildi þá næsta sólarhringinn. Fyrr í dag var veitt heimild til þess að þingfundur standi lengur í dag, í mesta lagi til miðnættis. Þingmenn hafa þá væntanlega gert ráðstafanir í samræmi við þá ákvörðun. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson er þegar búinn að skipuleggja svefn og sturtuferð og fleira til að undirbúa sig fyrir nefndarfund á morgun. Aðrir þingmenn þurfa að taka á móti erlendum gestum — Kínverjum, virðulegi forseti. Þótt það gleðji kannski ekki alla, ekki endilega hæstv. innanríkisráðherra, þurfa einhverjir að sinna þeim verkefnum. [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.)