139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega búinn að koma því á hreint að ég ætla í bað í fyrramálið. Það sem mig langar til að minnast aðeins á er að stjórnarþingmaður mælist til að við styttum ræðutíma okkar. Það er ljóst að hér er gríðarlega stórt mál á ferðinni. Rætt er um að framselja mikið vald frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra. Það kallar á að menn þurfa að tjá sig og 40 mínútur á mann er síst of mikið. Ég hefði viljað sjá þrefaldan ræðutíma þess vegna. Mér finnst það því skjóta svolítið skökku við að þingmaðurinn sem kennt hefur sig við samræðustjórnmál skuli mælast til að við styttum mál okkar til að komast fyrr heim.