139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um dagskrá þingsins og þau mörgu mál sem eru á dagskrá. Það er alveg með ólíkindum að við skulum ræða um Stjórnarráð Íslands, þessi heildarlög, á sama tíma og 32 önnur mál eru á dagskránni og reyndar mörg önnur sem væri mun mikilvægara að ræða, mál sem skipta töluvert meira máli fyrir fólkið í landinu. Mér finnst mjög undarlegt þegar við ræðum um þetta mál að hv. þm. Róbert Marshall skuli koma upp og velta fyrir sér af hverju þingmenn tali svona lengi. Það væri kannski ráð hjá hv. þingmanni að ræða við hæstv. forsætisráðherra og rifja upp hversu lengi hæstv. forsætisráðherra talaði í gegnum tíðina í mörgum málum. Ég man eftir því (Gripið fram í.) sem ungur drengur að hér var skólaborð við hliðina á ræðupúltinu. Á því skólaborði var gríðarlegt magn af gögnum. Ef ég man rétt talaði hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra í 12–14 klukkutíma samfellt í einu máli.