139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Komið hefur fram að við getum lengst flutt 40 mínútna ræður í þessu máli. Ég flutti ræðu mína áðan að ég tel efnislega, ég fór yfir hverja einustu grein í frumvarpinu sem mér fannst þurfa að gera athugasemdir við. Ég þurfti bara 40 mínútur í það, ekki 12 eða 14 klukkustundir, eins og hæstv. núverandi forsætisráðherra virðist hafa þurft í einhverju máli í þinginu.

Ég mótmæli því að hér eigi sér ekki stað efnisleg umfjöllun. Það er hins vegar furðulegt að við reynum að enda þennan septemberstubb með máli sem er gríðarleg óeining um og óánægja með, það eru himinn og haf á milli þeirra sem vilja klára málið og þeirra sem eru á móti því. Á meðan bíða fjölmörg mál sem skipta máli, mál sem eru jafnvel ekki á þessum lista. Ég nefni eitt mál; við eigum t.d. eftir að klára það sem snýr að gjaldeyrishöftum, ef menn vilja klára það yfirleitt. Ég nefni líka að (Forseti hringir.) það á eftir að ræða mál er snýr að því að veita Íbúðalánasjóði heimildir til að veita óverðtryggð lán, ef ég man rétt.