139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:01]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil til áréttingar segja, og ég held ég hafi sagt það ítrekað í ræðu minni, að ég hef ekki fengið skýringar á þeim athugasemdum sem ég bar upp, hvorki í ræðu framsögumanns né heldur í greinargerð af því ég er búin að lesa það allt saman. Þannig er það. Þess vegna erum við í þessari umræðu, til að skiptast á skoðunum.

Auðvitað held ég ekki, hæstv. forseti, að það skipulag sem menn hafa tileinkað sér annars staðar á Norðurlöndum sé slæmt. Ég tel að við lærum af því sem vel er gert, en sumt af því sem þar er er í dálítið annars konar — ég leyfi mér að sletta — kúltúr en við erum með hér. Þar er t.d. mikil hefð fyrir minnihlutastjórnum. Þar er annars konar hefð fyrir umræðum í þinginu en við höfum haft. Ég er talsmaður þess og ég held að ég hafi haldið um það margar ræður að við reynum að þróa þingstörfin hér þannig að þingið skili vandaðri lagasetningu. (Gripið fram í: En þingsköpin, hefurðu …?) Ég hygg að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi stutt þingsköpin nú í vor. Í þeim lögum (Forseti hringir.) er ekki ákvæði um skyldu formanna í nefnd. (Gripið fram í: … þingsköpum …)