139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:08]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt ábending hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Samkvæmt þeim athugunum sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd gerði á kostnaði við þær breytingartillögur sem sneru að fjölgun aðstoðarmanna nemur hann um 120 milljónum. Það mætti til dæmis setja það í samhengi við þann mikla ágreining sem hefur verið í stjórnarliðinu um (Gripið fram í.) Kvikmyndaskóla Íslands, svo að dæmi sé tekið.

Mér hefur hins vegar þótt mikill óbragur að fjölgun alls konar starfa í Stjórnarráðinu án auglýsinga, einnig samspilsins milli Alþingis og Stjórnarráðsins.

Ég vil þó segja að það skiptir máli í pólitískum ráðuneytum að menn hafi tök á því að ráða sér aðstoðarmenn. Ég skipti ekkert um skoðun um það. Það er mikilvægt að menn geti haft aðstoðarmenn sem skipta máli fyrir pólitíska stefnumörkun. En það verður allt að vera innan skynsamlegra marka. Það verður að vera þannig að þingið sé ekki algjörlega úti á túni við hlið Stjórnarráðsins að því leyti.