139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé ástæða til þess, í ljósi þess hversu mikilvægt mál við ræðum nú, að við fáum upplýsingar um hversu lengi við ætlum að halda umræðum um málið inn í nóttina. Það segi ég vegna þess að mér finnst vanta tilfinnanlega að stjórnarliðar fjölmenni í þingsal og bakki þetta mikilvæga mál sitt upp. Það virðist ekki vera mikill sannfæringarkraftur á bak við málið. Reyndar eru deildar meiningar innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar um hvort það eigi að ná fram að ganga. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur, m.a. til að fá að heyra sjónarmið sem flestra stjórnarliða í þessu máli sem leggja svo mikla áherslu á að það fari í gegn, að fresta þessum fundi fljótlega og eiga gagnlega umræðu á morgun um þetta mikilvæga mál sem sumir stjórnarliðar leggja meiri áherslu á en aðrir. Fæstir af þeim virðast hafa tök á því að vera við þessa umræðu. Það er mikilvægt að við fáum fram öll sjónarmið í málinu.