139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli undrun að frú forseti skuli ekki svara spurningu okkar um hvenær ljúka eigi þessum fundi. Við höfum verið að reyna að bæta vinnubrögðin á Alþingi. Ef þeir þingmenn sem hér starfa geta ekki fengið svör við því hvenær áætlað er að fundinum ljúki — við þurfum öll að skipuleggja okkar tíma — er það ekki til vitnisburðar um mikla framför í störfum Alþingis.

Á hinn bóginn vil ég benda hv. þingmönnum stjórnarliðsins sérstaklega á að í þessu máli er verið að ganga þvert á þær hugmyndir sem menn hafa haldið á lofti eftir hrun um að auka vægi og styrk Alþingis og minnka þannig áhrif framkvæmdarvaldsins, sem hafa verið allt of mikil í gegnum tíðina.

Það er rétt að fresta umræðunni þannig að eldheitir stuðningsmenn þessa máls mæti í þingsal til viðræðna við okkur í stjórnarandstöðunni, vegna þess að við ræðum hér grundvallarmál sem á ekki skilið að vera rætt fram á miðjar nætur (Forseti hringir.) að fjarstöddum mörgum mjög mikilvirkum stjórnarliðum sem hafa (Forseti hringir.) af veikum mætti reynt að styðja við framgang málsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)