139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Forseti. Ég tel við hæfi að byrja stuttlega á því að rifja upp sögu þessa máls. Ég mun ekki fara ítarlega yfir hana enda ekki tími til þess þar sem ég hef aðeins 40 mínútur til ráðstöfunar núna. Það þekkja svo sem allir að eitthvert form þessa máls hefur lengi verið sérstakt áhugamál hæstv. forsætisráðherra. Áhugi hæstv. forsætisráðherra á að koma þessu máli í gegn hefur aukist í jöfnu hlutfalli við það hversu margar athugasemdir eru gerðar við framgöngu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einkum er varðar afstöðu hans til samningsumleitana við Evrópusambandið.

Upprunalega var hugsunin sú að reyna að breyta ráðuneytum og menn komust áfram með það því að hér var myndað velferðarráðuneyti en það átti að gera fleiri breytingar, m.a. að mynda sérstakt atvinnuvegaráðuneyti þar sem sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneyti yrðu sameinuð í eitt. Þá hefði væntanlega ekki lengur verið þörf fyrir hæstv. ráðherra Jón Bjarnason í ríkisstjórn. Það mál var mjög vanbúið þegar það kom inn í þingið og varð lítið úr því. Þessar sameiningarhugmyndir ráðuneyta, þ.e. sú aðferð til að koma út hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, voru eins og ég nefndi á margan hátt vanhugsaðar, m.a. varðandi efnahagsleg áhrif. Það er reyndar ekki í fyrsta skipti sem frumvarp frá ríkisstjórninni er vanhugsað þegar kemur að efnahagslegum áhrifum þess. Við höfum fjölmörg nærtæk dæmi, eitt gríðarlega stórt er að sjálfsögðu frumvörpin í sjávarútvegsmálum þar sem menn höfðu ekki gert nokkra einustu tilraun til að reikna út efnahagsleg áhrif af þeim gríðarstóru frumvörpum þótt þar væri um að ræða grundvallaratvinnuveg landsins. Þegar menn fóru síðan að reikna komust allir að þeirri niðurstöðu að þau frumvörp hefðu verið stórskaðleg.

Við höfum annað enn nærtækara dæmi, frumvarpið um gjaldeyrishöft sem enn er hér til umræðu. Það var gefið sérstakt fyrirheit um að á því yrði gerð efnahagsleg úttekt en hún hefur enn ekki farið fram enda þótt sá frestur sem gefinn var til að vinna úttektina sé liðinn.

Hið sama á við um þessi stjórnarráðsmál, bæði það sem nú er til umræðu og fyrri útgáfur. Því var reyndar slengt fram á sínum tíma þegar til stóð að sameina ráðuneytin að það mundi spara 300 millj. kr. — það munar nú um það, upphæðin hefði dugað í þriggja daga vaxtagreiðslur af Icesave ef rétt er reiknað. Þegar menn fóru hins vegar að skoða málið kom í ljós að það var ekkert að marka þetta. Reyndar var jafnvel gert ráð fyrir útgjaldaaukningu til að byrja með, en svo mundi þetta hugsanlega leiða til fækkunar starfsmanna með tíð og tíma, hugsanlega til þess að það drægi úr skrifstofuplássi og að þar með spöruðust einhverjir peningar. Hugsanlega yrði einhverjum ráðherrabílstjórum sagt upp og þar fram eftir götunum. Reynslan sýnir reyndar að kerfið hefur tilhneigingu til að vaxa, fylla út í allt það rými sem það fær frekar en að tæma herbergi og draga úr leigukostnaði. Forsendurnar þá voru mjög vanhugsaðar og þær eru það einnig í þessari nýjustu tilraun, enda sjáum við það á því hvernig þetta mál er hér komið inn í þingið aftur til 2. umr. Það var fellt í allsherjarnefnd þingsins. Það þykir yfirleitt tíðindum sæta þegar stjórnarfrumvarp er fellt í nefnd.

Þrátt fyrir það var ákveðið að halda aukanefndarfund. Það voru í rauninni svik við samkomulag sem gert hafði verið um að nefndafundum væri lokið. Það hafði verið sérstaklega gengið frá því. En, nei, svo lá hæstv. forsætisráðherra á að koma þessu máli í gegn að nefndin var kölluð saman til aukafundar. Þá var greinilega búið að toga í einhverja spotta því að nógu margir nefndarmenn fengust til að skipta um skoðun til að málið kæmist inn í þingið til 2. umr. Nú er þessu máli haldið hér gangandi von úr viti þótt tugir annarra mála bíði, mál sem eru mismikilvæg, en jafnframt er alfarið haldið utan við umræðu í þinginu ýmsum brýnum úrlausnarmálum er varða þau mál sem hæst ber núna, stöðu heimila og atvinnulífs. Þau mál komast ekki einu sinni á dagskrá. Á meðan er hvers konar málum hrúgað inn á dagskrá en ekki einu sinni þau fást rædd vegna þess að það á eingöngu að ræða þetta sérstaka stjórnarráðsfrumvarp hæstv. forsætisráðherra.

Þetta frumvarp hefur verið kallað lengsta uppsagnarbréf í heimi. Menn hafa skrifað ótrúlega margar blaðsíður til að ná því markmiði að skipta út hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en hvernig stendur þá á því að menn eru ekki tilbúnir að leita annarra leiða? Hefur til að mynda hæstv. forsætisráðherra rætt það við samstarfsflokkinn að gera einhverjar breytingar í ríkisstjórninni þannig að núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra yrði fjármálaráðherra og fjármálaráðherra tæki við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu? Mundi það leysa eitthvað? Eða sitja menn enn þá uppi með þann vanda að samstarfsflokkurinn fæst ekki til að gera það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stendur í vegi fyrir? Hugsanlega er það ástæðan og erfitt um það að segja.

Menn hafa líka haft orð á því að það atriði þessa máls sem helst veldur áhyggjum, sumsé aukið miðstýringarvald og það að færa einræðisvald yfir ríkisstjórninni til hæstv. forsætisráðherra, ef svo má segja, valdi sérstökum áhyggjum og veki sérstaka athygli vegna þess hver er forsætisráðherra núna. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á þetta ágætlega í fínni ræðu hér fyrr í dag. Það kann að vera að það skipti máli, menn þekkja þær aðferðir sem hæstv. forsætisráðherra hefur beitt og efast þar af leiðandi sjálfsagt ekki um að kæmist þetta vald í hendur ráðherrans yrði því óspart beitt til að smala köttum í ríkisstjórninni og hafa menn þæga. Þetta felur í sér ótrúlega mikið vald, hver einn og einasti ráðherra utan forsætisráðherra hefði það stöðugt hangandi yfir sér að forsætisráðherrann tæki af þeim verkefni eða jafnvel embættið. Við þær aðstæður er ólíklegt að hver og einn ráðherra fylgi eingöngu því sem hann telur rétt að gera í hverju máli. Því miður sýnir reynslan þetta, það er líklegt að við þær aðstæður mundu ráðherrar hugsa fyrst og fremst um hvað forsætisráðherranum fyndist um þessa ákvörðun. Er ég með afstöðu minni að setja mína eigin stöðu í hættu eða á ég einfaldlega á hættu að ef hæstv. forsætisráðherranum líkar ekki afstaða mín taki hann verkefnið af mér? Því er með öðrum orðum komið til leiðar að ráðherrarnir verði að framfylgja hverju og einu verkefni sínu eins og þeir telja að forsætisráðherrann vilji að það sé unnið, ella missi þeir verkefnið eða ráðuneytið.

Þetta mál tengist miklu stærri umræðu sem er tengsl löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, tengist raunar heilmikilli umræðu sem hefur átt sér stað um þrískiptingu ríkisvalds. Það er sérkennilegt að á sama tíma og ríkisstjórnin og stór hluti þingsins hefur lýst yfir miklum vilja til að ráðast í umfangsmiklar breytingar á stjórnarskrá, ekki hvað síst þeim þáttum er lúta að þrískiptingu ríkisvalds, skuli í skyndi eiga að troða í gegn svona umfangsmiklum breytingum á Stjórnarráðinu án þess að taka tillit til heildarbreytinganna, breytinganna í stjórnarskránni.

Eitt af því sem við þurfum að hafa í huga er samband ríkisstjórnarinnar, ekki hvað síst hæstv. forsætisráðherra, og forsetans. Eins og því er stillt upp í þessu frumvarpi og í samræmi við stjórnarskrá á forsetinn að framkvæma vald forsætisráðherra. Forsætisráðherra tekur ákvörðunina og biður hæstv. forseta að framkvæma hana. Samskipti hæstvirtra ráðherra og forseta Íslands hafa verið dálítið erfið upp á síðkastið. Enn ein vísbendingin um það birtist síðdegis í dag, og í kvöld birtist svo frétt á vefmiðlinum Pressunni undir fyrirsögninni „Ólafur Ragnar: Get ekki setið undir aðför fjármálaráðherra, hvorki nú né síðar“. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þessa stuttu frétt því að hún er mikilvægt innlegg í þessa umræðu:

„Forseti Íslands segist ekki geta setið undir aðför fjármálaráðherra vegna Icesave-málsins. Hann segir ráðherrann tala gegn þjóðinni.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í viðtali í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Þar ræddi hann um stöðu embættisins, fjölmiðlasamskipti og samskipti við stjórnvöld.

Sagðist hann ekki hafa enn ákveðið hvort hann mundi bjóða sig fram til forseta Íslands fimmta kjörtímabilið. Hann ætlaði ekki að vera með vangaveltur hvað menn ætluðu að gera eftir hálft ár eða eitt ár, hvort heilsa væri til staðar. Líkt og með fyrri kjörtímabil yrði sú ákvörðun tekin þegar þar að kæmi. Tekið yrði tillit til eigin sjónarmiða sem og sjónarmiða þjóðarinnar.“

Svo segir:

„Þá sagðist forsetinn ætíð hafa átt góð samskipti við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Ætíð væri slegið í pönnukökur þegar hún mætti á Bessastaði. Vonaðist hann til að svo yrði áfram.

Hann var hins vegar ögn harðorðari í garð Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.

Ræddi hann um aðför fjármálaráðherra, þegar hann talaði gegn því sem forsetinn hefði sagt eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave og í raun talaði Steingrímur gegn niðurstöðum þjóðarinnar í Icesave-atkvæðagreiðslunni.

Sagðist Ólafur Ragnar ekki geta setið undir slíku, hvorki nú né síðar.“

Þetta — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill minna hv. þingmann á að óska leyfis forseta áður en vitnað er orðrétt til texta (SDG: Ég gerði það, virðulegi forseti.) og gera þeim sem á hlýða grein fyrir því hvenær tilvitnun lýkur. )

Já, ég bið afsökunar á þessu síðarnefnda, að gera ekki grein fyrir því að tilvitnun hefði lokið, en ég gerði hins vegar grein fyrir því að ég ætlaði að vitna í þessa frétt. Ég gerði ráð fyrir að virðulegur forseti hefði tekið eftir því en lesturinn hefur hins vegar líklega ekki verið virðulegum forseta að skapi. Það er annað mál.

Þegar það liggur fyrir að samskipti ríkisstjórnarinnar og forseta lýðveldisins eru með þessum hætti vekur það ýmsar spurningar um það hvernig menn ætla að stilla þeim samskiptum upp til framtíðar. Ríkisstjórnin hefur svo sem ekki farið leynt með það að hún hefur áhuga á því að takmarka vald forsetans. Forsetinn hefur stundum, reyndar ótrúlega oft, þurft að slá á hönd þessarar ríkisstjórnar og það mislíkar ríkisstjórninni sem hefur þar af leiðandi lýst yfir áhuga á að takmarka vald forsetans.

Hvaða vísbendingu gefur það okkur um það hvað gerðist ef hæstv. forsætisráðherra fengi allt það vald sem ráðherrann biður um með þessu frumvarpi? Hvernig yrði það notað ef meira að segja á að reyna að setja forseta lýðveldisins til hliðar? Hvernig yrði farið með almenna ráðherra í ríkisstjórninni?

Það kemur reyndar fram í þessu viðtali við forseta lýðveldisins að samskiptin við hæstv. forsætisráðherra hafi verið góð og að þau borði iðulega saman pönnukökur. Það vekur þá líka spurningar ef samskipti hæstv. forsætisráðherra og forsetans eru svona náin, en samskipti forsetans og hæstv. fjármálaráðherra eru það ekki, hvaða áhrif það hefur þegar svona frumvarp hefur verið leitt í lög.

Allt ber þetta að sama brunni. Það er stórvarasamt að færa aukið miðstýringarvald í hendur forsætisráðherranum. Við höfum um þetta ótal vísbendingar og viðvaranir í dag, undanfarnar vikur, undanfarna mánuði, undanfarin ár og undanfarna áratugi.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór vel yfir umræðuna sem átti sér stað þegar lög um Stjórnarráð Íslands voru samþykkt árið 1969. Þar vitnaði hv. þingmaður í ýmsa þá sem tóku til máls í þeirri umræðu og benti á að þar hefði ríkt töluverð samstaða um hvernig standa ætti að málum, hvað væri æskilegt og hvað óæskilegt.

Hv. þingmaður vitnaði í nokkra þingmenn en þó ekki í Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, sem tók til máls í þeirri umræðu. Eins og flestir þekkja var Ólafur Jóhannesson einn alvirtasti fræðimaður Íslandssögunnar, held ég að mér sé óhætt að segja, á sviði stjórnskipunar og lögfræði.

Ég gríp hér niður í ræðu Ólafs Jóhannessonar um stjórnarráðsmálið á sínum tíma. Með leyfi forseta hefst tilvitnun:

„Ég tel að það sé mikil nauðsyn á því að setja heildarlög um Stjórnarráð Íslands. Eins og rakið er í greinargerð með þessu frumvarpi hefur lagasetning um Stjórnarráðið til þessa verið í molum og þarf ekki að rekja það nánar, en ég held að það sé æskilegt að sett séu heildarlög um þetta og þessum málið komið í fastara horf en verið hefur. Ég álít að þær meginbreytingar sem í þessu frumvarpi felast séu spor í rétta átt. Ég álít að það sé sjálfsagt að lögfesta ráðuneyti þannig að það sé ekki, eins og reyndar hefur átt sér stað, hægt að setja upp ráðuneyti án þess að lög séu sett um það. Ég tel einnig æskilegt að það sé komið á fastari skipun á starfsskiptingu á milli ráðuneyta heldur en stundum hefur tíðkast. Ég tel einnig þá breytingu til bóta að ráðuneytið skuli heyra óskipt undir ráðuneytisstjóra.“

Þetta gengur gegn meginhugmyndum tillagna hæstv. forsætisráðherra nú. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi einnig í ræðu sinni lýsti hæstv. núverandi fjármálaráðherra árið 2007 yfir eindreginni andstöðu við sams konar tilfæringar og nú eru áformaðar af hæstv. forsætisráðherra. Hafi hæstv. fjármálaráðherra skipt um skoðun er það reyndar ekki fyrsta málið þar sem hann skiptir um skoðun en í þessu máli eins og mörgum öðrum var afstaða hæstv. núverandi fjármálaráðherra ljós og mjög eindregið gegn breytingum í ætt við það sem nú er til umræðu.

Ég ætla að koma aftur að ræðu Ólafs Jóhannessonar vegna þess að hann kemur þar inn á annað mál sem tengist umræðunni nú. Ég gríp aftur niður í ræðu hans, með leyfi forseta:

„Viðvíkjandi því hve ráðuneyti eigi að vera mörg þá er það auðvitað álitamál. Ég fellst á það að atvinnumálaráðuneyti sé skipt upp með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég tel það eðlilegt og í samræmi við þá þróun sem hér hefur átt sér stað. Þeir starfshættir sem hér er um að tefla eru auðvitað ekkert sambærilegir nú því sem áður var. Þess vegna tel ég þá breytingu eðlilega þó að það leiði til fjölgunar ráðuneyta og ég get alveg tekið undir það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reyknesinga að ég fellst ekki á þá skoðun, sem hann sagði að komið hefði fram af hálfu ráðuneytisstjóra, að ráðuneyti ættu að vera sem fæst og stærst. Það held ég að sé óheppilegt, m.a. af þeirri ástæðu sem hann benti réttilega á og ég sé í sjálfu sér ekki kosti þess að hafa ráðuneyti svo sérstaklega stór hvert fyrir sig, nema að því leyti til að þá verður embætti hvers ráðuneytisstjóra nokkuð umsvifameira en ella. Ég held að það sé eðlilegt að þessu sé skipt eftir eðli málefnanna niður í ráðuneytisskrifstofur.“

Þarna er sérstaklega komið inn á gamla atvinnuvegaráðuneytið og hvers vegna því var skipt upp í önnur ráðuneyti. Nú eru þetta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Þetta var vegna þess að samfélagið hafði þróast, allir þessir atvinnuvegir, og orðið miklu sterkari og margslungnari. Það er þess vegna mikil afturför að ætla sér nú, eins og þegar hefur komið í ljós að er vilji hæstv. forsætisráðherra, að sameina þessi ráðuneyti aftur í eitt bákn, eitt stórt atvinnuvegaráðuneyti. En kannski er það því miður í samræmi við það að þessir grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, iðnaður, sjávarútvegur og landbúnaður, hafa ekki notið sannmælis hjá þessari ríkisstjórn. Kannski þykir þeim þess vegna allt í lagi að hrúga þessu öllu saman í eitt ráðuneyti. Árið 1969 töldu menn sem sagt orðið tímabært og nútímalegt að skipta þessu upp, skipta atvinnuvegaráðuneytinu upp í minni ráðuneyti.

Það er líka á margan hátt skilvirkara. (Gripið fram í.) Uppi eru miklar hugmyndir um að flytja embættismenn milli ráðuneyta, hafa nokkurs okkar farandembættismenn sem ferðist milli ráðuneyta og leiti sér að verkefnum eftir því hvar mest er að gera. Það getur verið æskilegt að til staðar sé einhver hópur sem geti aðstoðað ólík ráðuneyti eftir þörfum, það er ekkert að því. Að ætla hins vegar að hafa allt kerfið í stöðugri óvissu, færa menn til og frá þannig að ráðuneytisstjórar og ráðherrar geti verið að togast á um embættismenn, er ég ekki viss um að sé sérstaklega sniðugt. Það er líka hvor sinn hluturinn að ætla að hafa einhvern hóp sem geti farið inn í ráðuneyti og aðstoðað eftir þörfum, það má víst ekki vera utanaðkomandi að mati hæstv. forsætisráðherra þó að hæstv. forsætisráðherra hafi líklega sett met í utanaðkomandi ráðgjöf, en verði niðurstaðan sú að ekki eigi að notast við utanaðkomandi aðstoð held ég það sé ekki æskilegt að allt kerfið sé í stöðugu uppnámi.

Á til að mynda skyndilega að kalla til sérfræðing í sjávarútvegsráðuneytinu í hvalveiðum, í alþjóðalögum sem tengjast hvalveiðum, þegar mikið er að gera í efnahagsráðuneytinu og setja hann í þau verkefni? Þetta vekur líka upp spurningar um sérhæfingu. Eru þetta skilaboð um að menn eigi ekki að sérhæfa sig, ráðuneytin eigi ekki að ráða sérfræðinga, menn sem þekkja gjörla til í tilteknum málaflokkum, það eigi eingöngu að ráða „altmuligmænd“ sem geti þvælst á milli ráðuneytanna með nokkurs konar flugfreyjuvagna með öllu dótinu sínu í, alltaf tilbúnir að setja upp skrifstofu hvar sem er, hvar sem þeirra er þörf, og pakka svo saman og fara á næsta stað þegar verkefninu er lokið? Ég er ekki viss um að þetta sé til þess fallið að skapa þá festu sem við höfum rætt um að þyrfti að nást í íslenskri stjórnsýslu.

Úr því að talið berst að festu spyr ég: Er það ekki einmitt eitt af því sem átti að ná með breytingum á Stjórnarráðinu, aukin sérfræðiþekking og aukin festa? Hvað erum við svo að ræða hér? Aukinn losarabrag og minni festu. Ég sé ekki alveg hvernig ráðuneyti eiga að vera betur í stakk búin til að vinna vinnu sína faglega við þær aðstæður.

Margir þingmenn hafa haft orð á því í umræðum hér í dag að þetta mál er auðvitað ekki tilbúið. Samráð hefur ekki verið til í þessu máli. Það er alltaf sama umræðan um þessi nýju stjórnmál og samráð en það fer ósköp lítið fyrir slíku af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti er hér skellt fram vanbúnu máli og til stendur að ryðja því í gegn með góðu eða illu. Hvers vegna í ósköpunum? Ég hef ekki enn fengið svar við þeirri spurningu frá hæstv. stjórnvöldum. Hvers vegna í ósköpunum bíða menn ekki með þetta mál, vinna það betur, reyna jafnvel að stunda eitthvert samráð — ef ríkisstjórnin skyldi vilja prófa það — og fara á meðan í að afgreiða einhverja af þessum tugum mála sem hér bíða afgreiðslu, jafnvel hleypa inn öðrum málum, málum er varða það sem helst brennur á samfélaginu þessa dagana?

Ég hef í andsvörum nefnt aðeins hugmyndir um að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra, pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra. Embættismannakerfinu er að sjálfsögðu ætlað að aðstoða ráðherrann, veita honum upplýsingar og ráðgjöf og framkvæma vilja ráðherrans og ríkisstjórnarinnar með samþykki Alþingis. Svo eru sérstakir pólitískir aðstoðarmenn ráðherranna sem hafa oft gegnt hlutverki eins konar upplýsingafulltrúa út á við og tekið þátt í hinum pólitíska leik ef svo má að orði komast. Las ég það ekki einhvers staðar í fréttum að til að mynda aðstoðarmaður hæstv. utanríkisráðherra hefði verið liðtækur í því að koma á nýjum flokki, mynda aðstoðarflokk við Samfylkinguna? Verkefni þessara pólitísku aðstoðarmanna eru fjölþætt og margbreytileg.

Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar gengið alveg ótrúlega langt í því að safna að sér slíku fólki, gefa því ýmis nöfn og ráða það án auglýsingar. Slíkar ráðningar nema tugum á síðustu tveimur, þremur árum. Allt hefur þetta fólk svo unnið að pólitískum framgangi ráðherranna í samræmi við starfslýsingu sína. Nú er talað um að festa þetta í sessi og fjölga pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra til mikilla muna. Og var ekki kostnaðurinn við þetta áætlaður 120 milljónir í áliti 1. minni hluta? Þetta getur í sjálfu sér verið réttlætanlegt hafi menn efni á því að létta aðeins undir með ráðherrunum svoleiðis að þeir geti til að mynda gefið sér tíma til að vera hér við umræður. Ef þetta mætti verða til þess að ráðherra gæti fylgst með sínum eigin málum og jafnvel tekið þátt í umræðu um þau gæti það til dæmis verið til gagns. En þá hlytum við á sama tíma að ætla að styrkja stöðu þingsins, ég tala nú ekki um stjórnarandstöðunnar. Landsbyggðarþingmenn höfðu aðstoðarmenn í hlutastarfi en þeir voru teknir af þeim í sparnaðarskyni. Er þá eðlilegt að setja 120 milljónir í að fjölga pólitískum aðstoðarmönnum ráðherranna á sama tíma og þingmenn stjórnarandstöðu hafa enn enga aðstoð nema formenn flokka? Er það til þess fallið að jafna leikinn, jafna stöðu framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, jafna stöðu stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu? Ég fæ ekki séð hvernig það má vera.

Allt ber þetta að sama brunni, þetta er til þess fallið að auka miðstýringu, þjappa saman valdi hjá hæstv. forsætisráðherra og efla um leið vald framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvaldsins, þveröfugt við það sem stefnt var að þegar lagt var upp með umfangsmiklar breytingar á stjórnskipun landsins.

Við höfum rætt í þaula það markmið með þessu að skipta út hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Framsetningin og röksemdafærslan virðist fyrst og fremst byggja á einhvers konar orðræðu, að reyna að tengja þetta við jafnvel rannsóknarskýrslu Alþingis enda þótt verið sé að fara gegn því sem ég taldi að ætti að vera meginmarkmiðið þar, að styrkja stöðu löggjafarvaldsins á kostnað framkvæmdarvaldsins, reyna að pikka upp jákvæða hluti í umræðunni og tengja þessu frumvarpi. Þetta eru orðræðustjórnmál sem þessi ríkisstjórn hefur beitt meira en nokkur önnur ríkisstjórn. Menn voru meira að segja farnir að skipta um nöfn á ráðuneytunum. Það var farið að minna ískyggilega á skáldsögur, ekki hvað síst skáldsögu Georges Orwells, 1984, þar sem stjórnvöld voru mjög dugleg við það að gefa öllu nafn, mjög falleg nöfn sem höfðu þó oft og tíðum öfuga merkingu við það sem lá að baki. Með öðrum orðum var reynt að stjórna með orðræðunni, með fallegu orðavali, en það sem var undirliggjandi hafði ósköp lítið með það að gera.

Við sáum hér að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var allt í einu breytt í mannréttindaráðuneyti. Auðvitað eru mannréttindi góð. Eru ekki allir sammála um það? Eiga ekki öll ráðuneyti að vera mannréttindaráðuneyti? Af hverju hét allt í einu eitt ráðuneytið mannréttindaráðuneyti?

Svo voru félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sameinuð og fengu nafnið velferðarráðuneyti. Af hverju halda menn þessu ekki áfram? Af hverju heitir fjármálaráðuneyti svona stirðu kerfislegu nafni? Af hverju heitir það ekki hagsældarráðuneyti? Og utanríkisráðuneyti gæti heitið alþjóðasamvinnuráðuneyti og Össur Skarphéðinsson væri hæstv. alþjóðasamvinnuráðherra. Menntamálaráðuneyti væri þekkingarráðuneyti — nú er ég bara að leggja í púkkið fyrir hæstv. ríkisstjórn. Innanríkisráðuneyti, er það ekki svolítið hart nafn? Samfélagsráðuneyti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti væri hins vegar tómstundaráðuneyti vegna þess að þær atvinnugreinar virðast eiga að falla í flokk tómstunda samkvæmt stefnu þessarar ríkisstjórnar. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason væri þá tómstundaráðherra.

Þetta er ekkert grín, svona eru mál þessarar ríkisstjórnar sett fram með einhverjum orðaleikjum, sérstaklega með því að tína eins og af trjánum frasa í umræðunni algjörlega án nokkurra undirliggjandi raka.

Að lokum vil ég segja nokkur orð í viðbót um þessar tillögur. Ég velti fyrir mér hvort ekki kunni að vera í þeim einhverjir kostir. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Þetta frumvarp sem slíkt er í sjálfu sér ekki langt þó að það feli í sér breytingar á ótal öðrum sviðum og sá hluti þess sem hefur valdið hvað mestum deilum er örstuttur. Það er ekki hvað síst 2. gr. Ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að fullyrða áfram að þetta snúist ekki um Jón Bjarnason, snúist ekkert um að auka miðstýringarvald hæstv. forsætisráðherra, hvers vegna leggur þá ekki bara hæstv. forsætisráðherra til að 2. gr. verði sleppt í þessari umferð sem og þeim þáttum málsins sem eru til þess fallnir að auka miðstýringu, til þess fallnir að hæstv. forsætisráðherra geti deilt og drottnað? Hvað er því til fyrirstöðu ef hæstv. forsætisráðherra ætlar ekki að nýta sér þetta vald?

Ég legg því til, til að greiða fyrir þingstörfum, að hæstv. forsætisráðherra kveðji sér hljóðs og opni á þann möguleika að henda einfaldlega út þessum umdeildu þáttum sem eru bara örfáar greinar, bara nokkrar línur, þáttum sem hún hvort eð er segist ekki ætla að nota neitt sérstaklega og allra síst gegn hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, Jóni Bjarnasyni, og athuga hvort ekki sé hægt að ná einhverjum áfanga í þessu máli með því að innleiða óumdeilda þætti þess, gera eins og menn gerðu 1969, reyna ná sátt og samstöðu um endurbætur. Svo getur hæstv. forsætisráðherra ef henni þykir enn þá eitthvað vanta upp á bætt því við á nýju þingi. Þá er nægur tími til að hafa gott samráð um það, láta menn meta áhrifin af slíkum breytingum, taka þau aftur til umræðu þegar við þurfum ekki að vera að ræða málin langt fram á kvöld, en vera þá búin að ná þeim áfanga að gera einhverjar þær breytingar sem allir eru sammála um.

Ef hæstv. forsætisráðherra er ekki sammála þessu væri fróðlegt að heyra hvers vegna ekki. Maður hlýtur að draga þá ályktun að það sé vegna þess að hæstv. ráðherra ætli sér að beita þessu valdi, ætli sér strax frá fyrsta degi — athugið að þetta má ekki bíða fram í október — að beita þessu valdi, byrja að deila og drottna, setja ráðherrana á sinn stað, taka þá á teppið og útskýra fyrir þeim, hvort sem það er hæstv. innanríkisráðherra, sem sé hæstv. samfélagsráðherra, eða hæstv. tómstundaráðherra, að þeim sé eins gott að haga sér almennilega og þvælast ekki fyrir í tilteknum málum. Ef þetta er ekki ætlunin er engin ástæða til að knýja þetta í gegn núna í stað þess að ræða þetta í rólegheitunum á nýju þingi í október.

Annars held ég, eins og ég kom reyndar aðeins inn á áðan, að það sé mjög æskilegt að skoða þessi mál öll í heild. Nú er ég búinn að opna á það að forsætisráðherra fari hér í gegn með þá þætti málsins sem eru óumdeildir, en annars held ég að það sé mjög æskilegt að skoða þessi mál sem hluta af heildaryfirferð yfir íslensk stjórnskipunarlög og íslenska stjórnsýslu sem ljóst er að mun standa hér að minnsta kosti næstu tvö árin. Það er undarlegt að gera allar þessar breytingar svona eina í einu, nota þessa bútasaumsaðferð, eins og kom fram hér fyrr í dag þegar hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á að sama dag og hér er verið að leggja niður nöfn ráðuneyta, þ.e. fela þau í hendur forsætisráðherra, eru menn að vinna að öðru máli þar sem á að festa nafn ráðuneytis í sessi. Þetta stangast á vegna þess að menn eru ekki með heildarmyndina. Í þessu eins og svo mörgum öðrum verkum ríkisstjórnarinnar skortir heildarmyndina.

Verði raunin sú að ráðast í samráð um þessi mál held ég að það væri æskilegt að við hefðum allt undir í einu. Það er bæði hagkvæmast og best til þess fallið að lögin vinni öll saman þannig að við skoðum stjórnarskrána, lög um Stjórnarráðið og lítum á þetta sem einn heildarpakka. Okkur gefst tækifæri til þess á þessu þingi, við höfum þrjá daga til stefnu, að taka inn einhverja af þessum tugum mála sem liggja nú óbættir hjá garði og jafnvel afgreiða einhver þessara mála.

Við munum hvernig fór í fyrravor þegar það hreinlega gleymdist að afgreiða nokkur mikilvæg mál vegna þess að ríkisstjórnin einblíndi á eitt eða tvö mál sem hún þurfti þá að troða í gegnum þingið. Hvað var það? Voru það ekki sjávarútvegsmálin sem átti að koma í gegn með góðu eða illu á þeim tíma með þeim afleiðingum að mjög mikilvæg mál sem ekki máttu bíða hreinlega gleymdust? Menn eru til að mynda enn ekki byrjaðir að kíkja eftir olíu á Drekasvæðinu, þó að Norðmenn séu þar komnir á fullt, vegna þess að það gleymdist að samþykkja þau lög sem til þurfti. Önnur mál gleymdust í leiðinni.

Við skulum reyna að nýta þá þrjá daga sem eftir eru af þessu þingi til að vinna mál vel og passa upp á að ekkert gleymist. Það er ekki víst að við náum þessum tugum mála sem ríkisstjórnin er búin að setja á dagskrá, einhver þeirra geta þurft að bíða fram á næsta þing, en klárum þau sem mest liggur á og pössum upp á að ekkert gleymist. Reynum að vinna þetta allt saman, ég er viss um að stjórnarandstaðan er til í að liðka mjög fyrir þingstörfum ef hæstv. forsætisráðherra sýnir slíkan samstarfsvilja. Þegar nýtt þing kemur saman getum við sett af stað heildarvinnu, samráð allra flokka við það að yfirfara lög um stjórnskipun landsins, Stjórnarráðið, og verðum þá vonandi tilbúin að minnsta kosti fyrir næstu kosningar til að gera góðar, vel ígrundaðar og heildstæðar breytingar í sátt.