139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er hárrétt ábending. Það er svolítið sérkennilegt að menn skuli ætla sér að hagræða með því að sameina stærstu ráðuneytin en hafa þau minni óbreytt að miklu leyti og er bara enn ein vísbendingin um að það sem raunverulega liggur þarna að baki sé eitthvað annað en notað er sem rökstuðningur.

Það er líka sérkennilegt ef menn ætla að ráðast í svona breytingar á Stjórnarráðinu að það skuli ekki gert í samráði og á þann hátt að sem flestir geti sammælst um breytingarnar, eins og gert var á sínum tíma 1969, heldur þvert á móti skuli hæstv. forsætisráðherra handvelja sérstakan hóp til að skila til sín niðurstöðu. Hvers vegna var sú aðferð notuð ef það var einhver alvara á bak við allt tal um samráð og að reyna að hafa alla með? Augljóslega var þessi aðferð ekki til þess fallin að ná því fram.