139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athygliverða ræðu. Það vekur athygli mína og ég heyri það á ræðu hv. þingmanns að hans athygli hefur jafnframt verið vakin að í frumvarpinu, eins og það kom upphaflega fram, virðist lítið miða að því að innleiða þær breytingar sem þingmannanefndin lagði til á grundvelli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hins vegar gerir allsherjarnefnd tilraun til að koma þeim inn.

Hvernig má það vera eftir alla þá vinnu sem fór fram og alla umræðuna í þinginu að framkvæmdarvaldið, sem vann í rauninni það frumvarp sem hér kemur fram, virðist ekki taka meira mark á þeim umræðum sem hafa skapast í þjóðfélaginu og virðist að mínu mati ekki ætla að læra neitt af þeim ábendingum sem þar komu fram? Hefur hv. þingmaður, sem er nú í lykilstöðu sem formaður stjórnmálaflokks, einhverjar hugmyndir um það með hvaða hætti megi styrkja stöðu löggjafans að öðru (Forseti hringir.) leyti til að þetta verði ekki línan í framtíðinni?