139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það væri fróðlegt að fá þessa skýrslu sem hv. þingmaður vitnar í. Ég hef ekki séð þetta í nýlegum samþykktum Framsóknarflokksins eða nýsamþykktri stefnu hans á síðasta landsfundi.

Vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað tengist margt í þessu frumvarpi fólkinu í landinu og heimilunum í landinu með óbeinum hætti því að það skiptir máli hvernig starfið er á Alþingi og að það sé skilvirkt og annað því um líkt. Ég fullyrði að fólkið í landinu er að hugsa um aðra þætti núna en það hvernig Stjórnarráð Íslands er uppbyggt, hvernig ráðherrar skipta með sér embættum og annað því um líkt.

Ég held að á flestum heimilum í landinu sé verið að hugsa um það dagsdaglega og um hver einustu mánaðamót hvernig eigi að ná endum saman. Ég held að á flestum heimilum í landinu sé verið að hugsa um það hvort til sé fyrir afborgunum af lánum um hver mánaðamót. Og ég held því miður að margir séu í vaxandi mæli farnir að horfa til þess möguleika að flytja úr landi í leit að atvinnu og betri lífskjörum. Þetta eru þau mál sem við ættum að vera að ræða hér í dag. Þetta eru þau mál sem ég veit að brenna á fólkinu í landinu og þá er ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að við förum að tilmælum þingmannanefndarinnar o.s.frv. Ég er að tala um forgangsröðun. Ég er að tala um hvað skiptir mestu máli fyrir fólkið í landinu og þjóðina.