139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir ræðu hans. Ég er innilega sammála því sem hann kom inn á í andsvari áðan að fara þurfi yfir það hvernig Stjórnarráðið er uppbyggt. Það hefur enginn flokka hér á þingi, hvorki í landsfundarályktunum né neins staðar annars staðar, sagt að það megi ekki breyta Stjórnarráðinu. Það verður náttúrlega að gera það í samvinnu og í sátt. Þetta er enn eitt dæmið um það að ríkisstjórnin er ekki tilbúin að leita sátta sem þó hefur gefist ágætlega í t.d. einu máli sem skiptir þingið máli, þ.e. í þingskapamálinu. Reyndar var verkstjórinn þar annar en hæstv. forsætisráðherra. Gott og vel.

Ég er sammála því að það brennur t.d. ekki á þeim 16% sem eru atvinnulausir á Suðurnesjum að koma þessu máli í gegn.

Nú hefur hv. þingmaður töluverða reynslu af því hvernig málum er háttað innan Vinstri grænna. Mig langar að forvitnast um það í ljósi orða núverandi formanns Vinstri grænna, sem var þá í stjórnarandstöðu og hv. þingmaður vitnaði til, um víðtæku sáttina sem hann taldi mikilvægt að þyrfti að vera til staðar svo hægt væri að breyta Stjórnarráðinu, hvort sérstaklega hafi verið leitað eftir sjónarmiðum, viðhorfum og hreinskiptum skoðanaskiptum innan Vinstri grænna varðandi þessa umbyltingu á Stjórnarráðinu tveimur árum eftir að formaður Vinstri grænna var kominn í stjórn. Það væri forvitnilegt að vita forsöguna innan Vinstri grænna, en um leið óska ég hv. þingmanni til hamingju með að hafa tekið farsælt skref inn í Framsóknarflokkinn.

Er hv. þingmaður annars sammála mér um að ekki sé ríkisstjórnarmeirihluti fyrir því að koma þessu máli í gegn fyrst hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lýst andstöðu sinni við það? Telur hann að (Forseti hringir.) þetta mál fari engu að síður í gegn og þá með stuðningi Hreyfingarinnar?