139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er var mikilvægt að fá þetta fram. Þetta undirstrikar þann verkferil sem er í hverju málinu á fætur öðru af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki brýnasta málið eins og ég hef talað um, en þetta er engu að síður mál sem er þarft að fara yfir, en við eigum að gefa okkur tíma í það. Það hafa allir þingmenn hér inni, 63 að tölu, skoðanir á því hvernig Stjórnarráðið á að vera byggt upp. Af hverju á ekki að láta reyna á það? Það hefur gefist ágætlega í öðrum málum, meira að segja á þessu þingi. Það er nokkuð sem við hefðum átt að reyna.

Ég bíð eftir því hvað hv. þingmaður segir varðandi stuðninginn og hver hans spá er varðandi þetta mál, hvort það muni ná í gegn, hvort ríkisstjórnarflokkarnir ætli af öllum málum að vera hér fram á nætur þá þrjá daga sem eftir eru af þessu þingi til að knýja á um þetta mál en láta önnur eins og málefni heimilanna liggja milli hluta.