139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem sagt hafa að raunar sé alveg með ólíkindum að ekki sé hægt að gefa það upp hvenær áætlað sé að slíta þingfundi. Klukkuna vantar nú 13 mínútur í 12 og var einungis samkomulag um að fundur stæði í dag þannig að það eru um 13 mínútur þar til þessi dagur er á enda runninn.

Ég vil taka það fram að ég veigraði mér ekkert við að standa hér jafnvel alla nóttina ef við værum að ræða mál sem skiptir máli. Ég vil t.d. benda á mál nr. 24 þar sem ætlunin er að veita heimildir til Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð íbúðalán. Ég mundi ekki telja eftir mér að taka umræðu um það alla nóttina og inn í morgundaginn því að ég veit það, frú forseti, að það er mál sem skiptir raunverulega máli fyrir land og þjóð.