139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ekkert skemmtiefni fyrir okkur þingmenn að þurfa að kreista svör út úr hæstv. forseta hvað varðar skipulag þinghaldsins. Auðvitað er forseta í sjálfsvald sett hvort hann eða hún svarar fyrirspurnum af því tagi en þegar spurningum er ekki svarað kallar það á að spurt sé aftur og aftur. En ég tek það fram að það er auðvitað ekki skemmtiefni.

Hins vegar vildi ég vekja athygli hæstv. forseta á því að sá ágreiningur sem er á ferðinni varðandi skipulag þinghaldsins í kvöld er bara angi af miklu stærra vandamáli og það vandamál er að það eru innan við þrír dagar eftir af þessari septemberþingi og það er ekkert plan, engin áætlun, engin hugsun í því hvernig ljúka eigi þingstörfunum.