139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera ágreining um börnin okkar og fjölskylduvænt umhverfi eða þess háttar. Ég ætla heldur ekki að gera athugasemd við það hvort þingfundur eigi að standa lengur en til miðnættis eða ekki, það liggur allt fyrir í ræðum og í þingtíðindum og skýrir sig sjálft seinna meir hvort forseti hefur rétt fyrir sér eða ekki. Ég ætla að ræða um það hvað við erum að gera.

Hér eru átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu, það er þannig. Þetta eru átakastjórnmál og hæstv. ríkisstjórn uppsker eins og hún hefur sáð. Hún hefur lítið sem ekkert samráð, hvorki við stjórnarandstöðu — ekki einu sinni við eigin þingmenn og hvað þá við aðila úti í bæ þannig að við erum í rauninni að vinna úr málum sem átti að vinna úr strax í byrjun. Það átti að taka tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðunnar strax í byrjun með samráði þannig að hún gæti sætt sig við hluti sem hún sættir sig ekki við að öðru leyti, en það er ekki gert. Við erum með átakastjórnmál og þar við situr.