139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég var hálfefins í því hvort ég ætti að taka til máls undir þessum lið því að núna gengur um þingsalinn sú flökkusaga að ef við látum af því að ræða fundarstjórn forseta og þá valdbeitingu sem beitt hefur verið verði einum þingmanni hleypt að og síðan klárist þingfundur í kvöld. Því langar mig að spyrja hæstv. forseta hvort hún hafi heyrt þessa sömu sögu og ég hef heyrt og hvort hún geti staðfest að einn þingmaður fái að tala, sá sem er næstur á mælendaskrá, og síðan verði fundi frestað.

Þegar beðið er um lengri þingfundartíma er talað um að forseti fái heimild til að hafa fundina lengri þann daginn. En frú forseti, ég ætla að benda á að kominn er nýr dagur og gott betur en það. Er ekki rétt að ljúka þessu?