139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs og fer í andsvar við hv. þingmann vegna þess sem hann sagði í upphafi ræðu sinnar og mátti heyra að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins brugðust illa við ummælum mínum um forustukreppuna sem nú einkennir þann flokk. Ég verð að segja af því tilefni að þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða einfaldlega að venjast tali og fréttum af þessum forustuvanda. Flokkurinn er enn í sárum eftir hrunið, hefur ekki gert upp erfiða fortíð í þessum efnum og þess vegna er ljóst að þetta mál er þeim flokki afar erfitt í umræðu í þinginu.

Ég vil líka segja að þegar ég ræddi um að samhengislaust þvaður setti niður virðingu Alþingis átti ég að sjálfsögðu ekki við þann langa fyrirlestur sem við fengum um dragnótaveiðar hjá hv. þingmanni í ræðu um það mál.

Flokkurinn sem um árabil bjó við alræðisvald forsætisráðherra er nú mjög á móti því að auknar valdheimildir verði færðar til forsætisráðherra þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu. Kannski er þessi afstaða gott dæmi um brennt barn sem forðast eldinn en Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði mótandi áhrif á stjórnsýsluna í 18 ár er núna andvígur því að gera nokkrar breytingar á henni. Eða hvaða breytingar nákvæmlega sem koma upp úr skýrslum um stjórnsýsluna eða skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis eða þingmannanefndarinnar er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn að gera á stjórnsýslunni? Það stendur ekki á sjálfstæðismönnum að tala um sundrung í öðrum flokkum og finnst það sjálfsagt en þegar það er gert um þeirra flokk í þingsal og sett í pólitískt samhengi við það mál sem rætt er um er það kallað skítkast. Ólíkt hafast menn að.