139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að draga til baka hluta af því sem ég sagði í lok ræðu minnar, að þeir hv. þingmenn sem bera ábyrgð á þessu máli gætu hugsanlega verið lausnamiðaðir og náð einhverjum árangri. Ég sé að hv. þm. Róbert Marshall er það aldeilis ekki. Hann er búinn að vera í einhverjum skylmingum í allan dag og í gær og virðist ekki leggja mikið til málanna. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé í einhverri tilvistarkreppu og forustukreppu þó að það sé verið að kjósa á landsfundi og talar um 18 ára valdatíð og að það þurfi að gera upp hrunið. Þá held ég að fyrst og fremst væri gott fyrir hv. þingmann að átta sig á því að Samfylkingin var við stjórn þegar hrunið átti sér stað. Hver var með efnahags- og viðskiptaráðuneytið þegar hrunið varð? Var það ekki Samfylkingin? Og hvaða einstakir ráðherrar héldu ráðherrum fyrir utan þegar menn voru að ræða þá vá sem var fyrir dyrum? Það voru ráðherrar Samfylkingarinnar. Þessi frasapólitík gengur ekki lengur, hv. þm. Róbert Marshall. (Gripið fram í.)

Svo tala menn um eitthvert alræðisvald hjá einhverjum foringjum sem hér hafa áður verið. Ég þekki það ekki, ég sat ekki á þingi þá. Ég minni bara á eitt, hv. þm. Róbert Marshall, þegar fyrri Icesave-samningarnir voru til umræðu í júní 2009 — hvað gerðist þá? Þá kom hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og sagði: Samfylkingin gerir engar athugasemdir við Icesave-samningana þó að enginn hv. þingmaður Samfylkingarinnar hefði haft tök á að lesa þá. Samt kom hæstv. forsætisráðherra og sagði: Samfylkingin gerir engar athugasemdir við þetta. Síðan tala menn um eitthvert foringjaræði og álíka bull eins og hv. þm. Róbert Marshall gerir. Það væri nær fyrir hv. þingmann að ræða efnislega um þetta mál og koma með einhverjar tillögur sem mundu bæta málið en að standa í svona skítkasti eins og hv. þingmaður hefur gert margítrekað í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)