139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrst vil ég þó segja að ég held að það sé ekki gott fyrir okkur sem störfum á þingi að alhæfa um heila stjórnmálaflokka eða heila stjórnmálastétt, eins og hv. þm. Róbert Marshall gerði um Sjálfstæðisflokkinn og síðan hv. þingmaður um Samfylkinguna. Ég held að við eigum að reyna að nýta þann mannauð sem er í öllum flokkum. Það er mannauður í öllum flokkum og fullt af góðum einstaklingum, hvort sem það er í Samfylkingunni, Vinstri grænum, Framsóknarflokknum eða Sjálfstæðisflokknum. En við megum ekki alltaf láta draga okkur út á þetta forað, eins og ég hef stundum sagt. Við eigum að reyna að nýta krafta okkar, helst öll sem eitt. Mér hefur oft fundist að þeir hv. þingmenn sem vilja alltaf vera í þessum slag dragi oft okkur hin allt of mikið út í leðjuna. Það held ég að sé mjög slæmt og þá reynum við ekki að vinna landi og þjóð gagn eins og við erum að sjálfsögðu öll tilbúin til að gera.

Það sem hv. þingmaður spyr um og hefur margítrekað komið fram í mörgum ræðum í dag er þetta svokallaða foringjaræði. Ég hugsa að ef hæstv. forsætisráðherra væri óbreyttur þingmaður mundi hún gera miklar athugasemdir við þetta. En við þurfum að fara yfir þessa hluti og ræða þá. Það eru ákveðnir gallar á málinu. Ég kom inn á það í ræðu minni í dag að hv. þm. Eygló Harðardóttir boðaði ákveðna breytingartillögu og þó ég sé ekki sammála öllu sem þar kemur fram er það ákveðin málamiðlun um það hvernig við getum nálgast verkefnið. Ég trúi því ekki, og ég sagði það tvisvar í ræðu minni, að neinn hv. þingmaður, sama í hvaða flokki hann er, hafi það markmið að færa meiri völd frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins.