139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að það sé mikilvægt að framkvæmdarvaldið geri það sem það á að gera og löggjafarvaldið geri það sem það á að gera.

Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni að eins og þetta virkar í dag, þegar einstakir hæstv. ráðherrar geta sett reglugerðir sem ganga svo langt að það er mjög óeðlilegt að mínu mati, þá finnst mér mjög umhugsunarvert af hverju viðkomandi hæstv. ráðherra er þá ekki falið að mæla fyrir þingsályktunartillögu hér. Við getum rætt hvort það ætti að vera ein umræða, tvær umræður eða hvernig við mundum þróa það. En að þingið og hv. þingmenn sjái það í blaðaviðtölum eða fréttatilkynningum hvað hæstv. ráðherra er að gera hverju sinni, hver sem hann er og úr hvaða flokki hann er, það finnst mér ekki hægt. Mér finnst að við þurfum að ræða það að löggjafarvaldið sé ekki að framselja vald til framkvæmdarvaldsins eins og við höfum reyndar fengið ábendingar um, t.d. frá umboðsmanni Alþingis Þessa umræðu þurfum við að taka og ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að vita hver verkaskiptingin er, hver á að gera hvað, svo það sé einhver markviss stjórnun á þessu. Þar þarf mikla breytingu til.